Viðskipti erlent

Kögun kaupir hugbúnaðarfyrirtæki í Bandaríkjunum

Gunnlaugur M. Sigmundsson, forstjóri Kögunar, segir kögun stefna hátt.
Meðal viðskiptavina nýja fyrirtækisins eru nöfn sem allir Íslendingar þekkja.
Gunnlaugur M. Sigmundsson, forstjóri Kögunar, segir kögun stefna hátt. Meðal viðskiptavina nýja fyrirtækisins eru nöfn sem allir Íslendingar þekkja.

Kögun hf. hefur skrifað undir samning um kaup á bandarísku hugbúnaðarfyrirtæki. Ekki hefur verið greint frá nafni fyrirtækisins. Það verður ekki gert fyrr en áreiðanleikakönnun hefur verið framkvæmd af hálfu endurskoðenda og lögfræðinga Kögunar.

Gert er ráð fyrir að endanlega verði gengið frá samningnum í lok desember. Fyrirtækið, sem er í einkaeign, hefur verið starfrækt frá árinu 1979 og hjá því starfa um þrjátíu manns. Það er sérhæft í sölu og innleiðingu viðskiptahugbúnaðar Microsoft og er staðsett á miklu vaxtarsvæði í Bandaríkjunum.

Kaupverð á fyrirtækinu er trúnaðarmál en að sögn Gunnlaugs M. Sigmundssonar, forstjóra Kögunar, er fyrirtækið í góðum rekstri og ýmis nöfn meðal viðskiptavina þess sem allir Íslendingar þekkja. Gunnlaugur segir þetta aðeins fyrstu fjárfestingu af mörgum í Bandaríkjunum og fyrirtækið stefni á mikinn vöxt þar.

"Við erum að kaupa okkur móðurskip til að byrja á. Fleiri kaup munu fylgja í kjölfarið á og innan tveggja ára verðum við komin með almennilega veltu í Bandaríkjunum."

Kögun stefnir hátt á sviði viðskiptalausna og hefur það að markmiði að verða meðal þeirra fimm stærstu í Bandaríkjunum á því sviði. Hann bendir á að Kögun sé ekki sókunnugt Bandaríkjamarkaði enda hafi það verið stofnað í Los Angeles og fyrstu árum í rekstri þess eytt þar. Það renni því ekki blint í sjóinn með markmið sín. Það sé hins vegar ekki ætlunin að fara í útrás með þeim hætti að setja sjálf upp útibú í Bandaríkjunum. Frekar verði fjárfest í vel reknum bandarískum fyrirtækjum í sóknarhug og þau sameinuð með tímanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×