Erlent

Engu nær lausn á fjárlagadeilu ESB

Tregir til að fylgja Blair. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands sem nú gegnir formennskunni í ESB, og starfsbræður hans frá nýju aðildarríkjunum, Tékklandi, Ungverjalandi, Slóvakíu og Póllandi, í Búdapest á föstudag.
Tregir til að fylgja Blair. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands sem nú gegnir formennskunni í ESB, og starfsbræður hans frá nýju aðildarríkjunum, Tékklandi, Ungverjalandi, Slóvakíu og Póllandi, í Búdapest á föstudag.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands sem gegnir nú formennskunni í Evrópu­sambandinu, hefur á ferð sinni milli höfuðborga nýju aðildarríkjanna í austanverðri álfunni ekki orðið mikið ágengt við að afla sjónarmiðum sínum hljómgrunns í mesta ágreiningsmálinu innan sambandsins um þessar mundir.

Heimsóknarrúnt­urinn er liður í undirbúningi leiðtogafundar ESB sem markar hápunkt breska formennsku­misserisins sem lýkur um áramótin, en hann fer fram í Brussel dagana 15. og 16. desember. Ágreiningur­inn stendur um fjárlagaramma Evrópu­sambandsins fyrir tíma­bilið 2007-2013. Blair hitti starfsbræður sína frá Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu og Ungverjalandi í ungversku höfuðborginni Búdapest á föstudag.

Hugmyndir Blairs um uppstokkun á sjóðakerfi sambandsins hlutu þar kaldar móttökur, enda óttast ráðamenn þar eystra að lönd þeirra missi við þær breytingar spón úr aski sínum - að minni fjárhagsaðstoð við efnahagsuppbyggingu í austantjaldslöndunum fyrrverandi berist úr sjóðum ESB.

En Blair varaði við því að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir sambandið ef ekki tekst samkomulag um fjármálin á leiðtogafundinum nú. "Náist ekki samkomulag núna... tel ég að það sé ólíklegt að við náum nokkru samkomulagi á næstu tveimur formennskumiss­erum (árið 2006)," tjáði Blair blaðamönn­um í Búdapest.

Hávær krafa er um það meðal margra aðildarríkja að Bretar gefi eftir endurgreiðslur sem þeir hafa fengið úr sjóðum ESB frá því Margaret Thatcher tókst að semja um þær árið 1984. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hitti pólska forsætisráðherr­ann, Kazimierz Marcinkiewicz, líka á föstudaginn á heimavelli hans í Varsjá.

Hún sagði við það tækifæri að ESB yrði að ná "sanngjarnri málamiðlun" í fjárlaga­málinu. Merkel gaf í skyn eftir viðræður sínar við Marcinkiewicz að þýska stjórnin væri reiðubúin að koma til móts við sjónarmið nýju aðildarríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×