Viðskipti innlent

Lýsir áhyggjum fjárfesta af fjármögnun KB banka

Royal bank of Scotland Segir fjármögnun KB banka enn til of skamms tíma.
Royal bank of Scotland Segir fjármögnun KB banka enn til of skamms tíma.

Royal Bank of Scotland segir erlenda fjárfesta hafa áhyggjur af nokkrum þáttum sem auka rekstraráhættu KB banka. Bankinn sé meðal annars mjög svo háður lánsfjármörkuðum við fjármögnun starfseminnar.

Í umsögn Royal Bank of Scotland, sem er einn af stærstu bönkum heims, um KB banka er bent á að bankinn sé mjög háður lánsfjármörkuðum um fjármögnun. Innlán séu lítill hluti af fjármögnun KB banka þó sameiningin við breska bankann Singer & Friedlander hafi bætt þar úr. Á þriðja ársfjórðungi hafi 65 prósent af heildareignum verið fjármagnaðar að miklu leyti með skammtímalánum og verðbréfaútgáfu. Þetta hafi áhrif á rekstraráhættu bankans.

Royal Bank of Scotland (RBS) segir ástæðu til að hafa áhyggjur af þrennu: áhættu vegna vægi einstakra markaðsverðbréfa í eigu KB banka þótt henni hafi verið dreift með kaupum á öðrum fjármála­fyrirtækjum, áhættu vegna þess hve háður bankinn er fjármögnun á lánsfjármarkaði, og áhættu vegna stærðar bankans en því eigi íslensk stjórnvöld erfitt með að grípa til fullnægjandi aðgerða lendi bankinn í alvarlegum vandræðum.

Umsögn RBS kemur í kjölfar annarrar umsagnar bankans frá 17. nóvember síðastliðnum en Morgunblaðið greindi frá þeirri fyrrnefndu í gær. Taldi RBS þá fjárfesta hafa miklar áhyggjur af stöðu KB banka, meðal annars vegna fjárfestinga hans í áhættusömum eignum, þátttöku í skuldsettum kaupum, vægi einstakra eigna í veltubók og stærðar miðað við íslenskt efnahagslíf.

Stjórnendur KB banka komu leiðréttingum á framfæri og var þá ný umsögn gefin út í fyrradag. Þar segir að greitt hafi verið úr áhyggjum varðandi nokkur atriði, meðal annars hvað varði hlutdeild í fjárfestingum Baugs, lán og stöðutöku í skuldsettum kaupum og liði utan efnahagsreiknings sem voru óútskýrðir. Voru veigamiklir þættir í gagnrýninni leiðréttir.

"Það er enginn vafi á því að mörgum fjárfestum finnst íslenskt efnahagslíf vera mjög skuldsett og rekstur bankanna sé auðvitað viðkvæmari fyrir því en annar rekstur," segir í umsögninni. Auk þess valdi það áhyggjum að íslenskt hagkerfi sé lítið miðað við stærð bankanna og ákvarðanir séu teknar af fáum aðilum.

RBS varar fjárfesta við að taka mark á öllum þeim kjaftasögum sem heyrast en hvetur stjórnendur íslensku bankanna til að efla miðlun upplýsinga og bæta samskipti við markaðsaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×