Innlent

Lýsi á dag kemur beinum í lag

Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur hvetur fólk til þess að taka lýsi, D-vítamíntöflur eða D-vítamínbættar mjólkur­vörur eftir að rannsókn hennar leiddi í ljós að það er líkamanum jafnvel enn mikilvægara en að fá mikið kalk.
Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur hvetur fólk til þess að taka lýsi, D-vítamíntöflur eða D-vítamínbættar mjólkur­vörur eftir að rannsókn hennar leiddi í ljós að það er líkamanum jafnvel enn mikilvægara en að fá mikið kalk.

"Hingað til hefur verið lögð mikil áhersla á það að fólk taki nóg af kalki en þessi rannsókn leiðir í ljós að það sem skiptir jafnvel meira máli er að fólk fái nóg D-vítamín því án þess er kalkið ekki að virka," segir Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur.

Rannsóknin var unnin á Landspítalanum í samvinnu við Lýðheilsustöð og grein þar sem minnst er á hana birtist í nýjasta tölublaði bandaríska læknatímaritsins The Journal of the American Medical Asso­ciation. Höfundar greinarinnar auk Laufeyjar eru Örvar Gunnarsson, Ólafur S. Indriðason, Leifur Franzson ­og Gunnar Sigurðsson.

"Í þessari grein hvetjum við lækna til að beina þeim tilmælum til sinna skjólstæðinga að taka D-vítamín aukalega þar sem það er að finna í svo fáum fæðutegundum. Lýsi er einnig fyrirtaks lausn á þessu en það innheldur nægilegt D-vítamín." Auk lýsisins getur fólk fengið D-vítamín úr síld, laxi og silungi en þar sem slíkt er ekki alltaf á boðstólum hvetur hún fólk til að taka D-vítamíntöflur eða D-vítamínbættar mjólkurvörur.

Það sem gerist ef D-vítamín skortir er að kalkið verður ekki í réttu hlutfalli í blóðinu og því fer líkaminn að vinna kalk úr beinunum, sem er ávísun á beinþynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×