Erlent

Konur og börn hálshöggvin

Lík 41 Íraka hefur fundist síðastliðna tvo daga og er greinilegt að fólkið hefur verið tekið af lífi. Meðal hinna látnu eru bæði konur og börn. Á þriðjudaginn fundust 26 lík á akri nærri borginni Qaim í vesturhluta landsins. Líkin voru öll sundurskotin og virtust þau hafa legið á akrinum í nokkra daga. Fólkið var allt í borgaralegum klæðum og var ein kona þar á meðal. Ekki er vitað um nein deili á þessu fólki. Sama dag fundu íraskir hermenn lík tíu karla, þriggja kvenna og tveggja barna í bænum Latifiya sem er skammt sunnan við Bagdad. Fólkið hafði allt verið hálshöggvið. Að sögn írasks embættismanns er talið að karlmennirnir hafi fyrir tveimur vikum skráð sig í íraska herinn en uppreisnarmenn hafi síðan rænt þeim. Hryðjuverk héldu áfram í Írak í gær sem aldrei fyrr. Sjálfsmorðsprengjuárás var gerð fyrir framan hótel sem margir Vesturlandabúar dvelja á. Þrír fórust í tilræðinu auk árásarmannsins. Útsendarar al-Kaída í Írak hafa þegar sagst bera ábyrgð á árásinni á hótelið sem þeir kalla "hótel gyðinganna".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×