Sport

Titillinn handan við hornið

Chelsea svo gott sem tryggði sér Englandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í gær þegar liðið sigraði Fulham með þremur mörkum gegn einu. Eiður Guðjohnsen skoraði þriðja mark Chelsea en þetta var 11. mark hans í deildinni á leiktíðinni. Chelsea verður meistari á mánudagskvöld, takist Arsenal ekki að sigra Tottenham. Chelsea er með 85 stig og hefur 14 stiga forystu á Arsenal. Chelsea á eftir fjóra leiki en Arsenal fimm. Everton gerði 1-1 jafntefli við Birmingham á meðan grannar þeirra í Liverpool biðu ósigur fyrir Crystal Palace, 1-0. Í baráttunni um 4. sætið, sem gefur keppnisrétt í forkeppni Meistaradeildar á næstu leiktíð, hefur Everton 54 stig og á fjóra leiki eftir, Liverpool og Bolton, sem gerði 1-1 jafntefli við Aston Villa, eru fjórum stigum á eftir Everton og eiga aðeins þrjá leiki eftir. Sunderland tryggði sér í gær sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð þegar liðið sigraði Leicester með tveimur mörkum gegn einu. Jóhannes Karl Guðjónsson byrjaði inná í liði Leicester en fór útaf á 66. mínútu en hann hafði skömmu áður fengið gult spjald. Þegar tvær umferðir eru eftir hefur Sunderland 88 stig en Wigan er í öðru sæti með 83 stig. Ipswich er í þriðja sæti með 81 stig eftir 1-1 jafntefli við Leeds í gær. Gylfi Einarsson byrjaði inn á í liði Leeds en var skipt útaf á 67. mínútu. Heiðar Helguson lék allan leikinn með Watford sem gerði markalaust jafntefli við Sheffield United. Ívar Ingimarsson var á varamannabekk Reading sem tapaði fyrir Cardiff, 2-0.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×