Innlent

Sekur um fyrstu gráðu morð

Maður sem skaut til bana hina hálfíslensku Lucille Mosco og særði Jón Atla Júlíusson, son hennar, alvarlega í Flórída fyrir tveimur árum var í gær fundinn sekur um fyrstu gráðu morð og tilraun til morðs. Jón Atli vonar að maðurinn verði dæmdur til dauða. Réttarhöld í málinu gegn Sebastian Young hófust í Pensacola í Flórída í síðustu viku og lauk þeim í fyrradag. Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu í gærkvöld að Young væri sekur um fyrstu gráðu morð og tilraun til morðs. Hann skaut Lucille, fyrrverandi eiginkonu sína sem var 37 ára, til bana á heimili hennar þann 14. mars árið 2003. Einnig skaut hann á Jón Atla, son hennar sem nú er 18 ára, og stakk mörgum sinnum með hnífi. Áður en málið var tekið fyrir hafði því verið frestað fjórtán sinnum. Dómurinn taldi Young sekan af öllum ákæruatriðum og á hann yfir höfði sér annað hvort dauðadóm eða lífstíðarfangelsi, án þess að eiga möguleika á náðun. Kviðdómur á eftir að taka ákvörðun um refsingu og hefur dómari síðan mánuð til að taka endanlega ákvörðun. Morðið á Lucille vakti mikinn óhug í Flórída á sínum tíma en Young hafði ítrekað rofið nálgunarbann og hótað henni. Jón Atli bar vitni í málinu og lýsti því fyrir dómi hvernig morðingi móður hans elti hann frá heimili þeirra, skaut hann í bakið, stakk og barði, þar til honum tókst að flýja og vekja athygli nærstaddra á því sem hafði gerst. Hann segist sáttur við dómsniðurstöðuna og vonast til að Young verði dæmdur til dauða fyrir það sem hann gerði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×