Erlent

22 létust í Mosul

Að minnsta kosti 22 liggja í valnum eftir sprengjuárás á bandaríska herstöð í nágrenni Mosul í Írak í dag. Mannskæðar sprengjuárásir af þessu tagi eru að verða daglegt brauð nú í aðdraganda þingkosninganna og Tony Blair, forsætisráðherra Breta, þótti því sýna nokkra fífldirfsku með því að dúkka óvænt upp í heimsókn í Bagdad í morgun. Minnst fimmtíu eru særðir eftir árásina í Mósúl í dag og vitað er að nokkrir bandarískir hermenn eru meðal hinna föllnu og særðu. Þetta er ein mannskæðasta árásin frá upphafi stríðsins í Írak en slíkar árásir færast nú í aukana jafnt og þétt eftir því sem líður að þingkosningum í landinu í lok janúar. Andspyrnuhópar hafa heitið því að hleypa kosningunum í uppnám og reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir þær. Árásin í Mósul var ekki sú eina í dag því olíuleiðsla var einnig sprengd í sundur og þekktur íraskur kjarnorkusérfræðingur var ráðinn af dögum. Það vakti því mikla athygli að mitt í öllum þessum hamagangi og ofbeldisöldu þá mætti Tony Blair, forsætisráðherra Breta, óvænt í heimsókn til Íraks og fór bæði til Bagdad og Basra. Blair lýsti því yfir á blaðamannafundi með Allawi, forsætisráðherra íröksku bráðabirgðastjórnarinnar, í hádeginu í dag að þeir írösku embættismenn sem ynnu að undirbúningi kosninganna væru ekkert annað en hetjur sem stofnuðu lífi sínu í hættu á hverjum degi í þágu lýðræðis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×