Innlent

200 manns í starfsmannaþorpi

Uppbygging starfsmannaþorps vegna byggingar Fjarðaráls á Reyðarfirði stendur nú sem hæst. Tvö vöruflutningaskip Samskipa komu til hafnar á Reyðarfirði í gær með samtals 82 hús fyrir vinnubúðir Fjarðaráls. Flutningar vegna starfsmannaþorpsins hófust í ágúst síðastliðnum og hafa bæði verið fluttar einingar frá Búdapest í Ungverjalandi og Houston í Bandaríkjunum. Alls verða fluttar yfir 900 einingar. Um er að ræða skrifstofur, svefnskála og ýmiskonar fylgihluti. Glúmur Baldvinsson, upplýsingafulltrúi verktakafyrirækisins Bechtel, sem byggir álverið á Reyðarfirði, segir að framkvæmdir gangi vel við uppbyggingu þorpsins. Nú þegar búi tæplega 200 manns í þorpinu. Hann segir að bygging þorpsins þurfi að vera vel á veg komin næsta vor því þá hefjist framkvæmdir við álverið sjálft. Búast megi við því að árið 2006, þegar framkvæmdir við álverið standi sem hæst, muni um 1.800 manns búa í starfsmannaþorpinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×