Erlent

Sagður hafa viljað beita hernum

Viktor Janúkovitsj, forsætisráðherra Úkraínu, þvertók í gær fyrir að hafa reynt að fá Leoníd Kútsjma forseta til að beita hersveitum gegn mótmælendum í Kiev. Breska viðskiptadagblaðið Financial Times birti í gær frétt þess efnis að Janúkovitsj hefði farið þessa á leit við Kútsjma og vísaði til heimilda í úkraínsku stjórninni og meðal sendimanna erlendra ríkja. Samkvæmt frétt Financial Times var Janúkovitsj einn þeirra áhrifamanna í úkraínskum stjórnmálum sem vildu að her eða öryggissveitir yrðu notaðar til að tvístra mótmælendum sem voru komnir til höfuðborgarinnar til að mótmæla kosningasvindli ráðamanna. "Ég veit að margir fulltrúar stjórnvalda reyndu að fá forsetann til að lýsa yfir neyðarástandi," hefur blaðið eftir Vasyl Baziv, aðstoðarstarfsmannastjóra forsetans. "Þeir sögðu að tími væri kominn til að nýta vald ríkisins. Forsetinn var frá fyrstu stundu mótfallinn því að beita valdi," sagði Baziv. Meðal þeirra sem sagðir eru hafa þrýst á forsetann er starfsmannastjóri hans, Viktor Medvetsjúk. Kútsjma er sagður hafa neitað að beita hervaldi þar sem hann vildi ekki að valdatíma sínum lyki með blóðugum átökum. Janúkovitsj þvertekur fyrir að hafa hvatt til þess að hervaldi yrði beitt gegn mótmælendum. Janúkovitsj var lýstur sigurvegari kosninganna sem fram fóru í síðasta mánuði og voru dæmdar ógildar nokkru síðar. Hann etur nú kappi við Viktor Júsjenkó í endurtekningu kosninganna. "Ég tók ekki þátt í neinum umræðum um þessa spurningu. Þessar upplýsingar eru falskar. Við ræddum ekki um að beita valdi heldur einungis um að koma á reglu," sagði Janúkovitsj eftir birtingu fréttarinnar. Fréttin er afar óheppileg fyrir Janúkovitsj, sem er talinn eiga erfitt uppdráttar gegn Júsjenkó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×