Viðskipti innlent

Sumarbókaflóð

Mikil aukning hefur orðið á bókaútgáfu að sumri til á síðustu árum. Útgefendur segja helstu breytinguna felast í því að meiri áhersla er lögð á að gefa út kiljur og að neytendur kaupi í auknum mæli bækur í því formi til að lesa yfir sumartímann. Um tíu þúsund eintök hafa selst af íslenskri þýðingu á metsölubókinni "Da Vinci lykillinn" í sumar en bókin kom út á kiljuformi í vor. Bók Þráins Bertelssonar "Einhvers konar ég" hefur einnig selst mjög vel í kiljuformi í sumar þrátt fyrir að ekki sé nema hálft ár síðan hún kom fyrst út og seldist í um tíu þúsund eintökum. Bókaútgefendur telja að landslagið á bókamarkaði sé að breytast hratt. Bókatútgáfan Bjartur gaf út tvær nýjar skáldsögur í sumar. "Við höfum verið að gera tilraunir með þessa vorútgáfu og erum bara mjög ánægðir með það," segir Jón Karl Helgason hjá Bjarti. Hjá JPV útgáfu segir Egill Jóhannsson að sumarvertíðin sé að verða veigameiri þáttur hjá bókaútgáfum. Hann segir að JPV hafi byrjað á sérstöku kiljuátaki fyrir fjórum árum og upp frá því hafi landslagið breyst. Sú sumarbók sem vakið hefur mesta athygli hjá JPV er vafalaust nýútkomin bók Ómars Ragnarssonar um Kárahnjúkavirkjun en nú er verið að dreifa henni í bókabúðir í annað sinn. Um eitt þúsund eintök af bókinni hafa farið út. Egill segir hugarfarsbreytingu hafa átt sér stað í íslenskri bókaútgáfu. "Oft var það þannig að í kilju settu útgefendur það sem þeir treystu sér ekki til að gefa út innbundið. Þannig að kiljurnar voru mjög misleitar," segir hann. Nú sé hins vegar gefið út mun vandaðra efni á kiljuformi. Rakel Pálsdóttir hjá Eddu segir kiljusölu hafa aukist mjög. Hún segir að fólk sé farið að taka við sér og að fólk sem kaupi kiljur á sumrin sé gjarnan að kaupa bækur sem það vill sjálft lesa en jólabókasalan einkennist af því að fólk kaupir bækur handa öðrum. "Við leggjum töluverða áherslu á að gefa út góðar kiljur yfir sumartímann. Þetta var daufur tími en það hefur breyst," segir Rakel.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×