Sport

Eins árs samningur borðinu

Framherjinn sterki Hannes Sigurðsson, sem hefur skorað sex mörk með U-21 árs landsliði Íslands, mun að öllum líkindum skrifa undir nýjan eins árs samning við norska liðið Viking í næstu viku. Forráðamenn Viking hafa lagt samninginn á borðið og sagði Hannes að hann væri mjög sáttur við samninginn. "Þeir gengu að öllum mínum kröfum og ég er að sjálfsögðu mjög sáttur við það. Ég mun væntanlega skrifa undir samninginn í næstu viku ef ekkert kemur upp á," sagði Hannes í samtali við Fréttablaðið í gær. Hannes, sem hefur byrjað inn á í einum leik hjá Viking í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en komið sautján sinnum inn á sem varamaður, sagði að það væri góður kostur fyrir hann að vera áfram hjá Viking, sérstaklega á meðan þjálfari eins og Roy Hodgson væri hjá félaginu. "Hann er frábær þjálfari sem hefur kennt mér mikið síðan hann kom til liðsins. Ég trúði því eiginlega ekki þegar það var tilkynnt að hann væri að fara að taka við liðinu. Hann er með gífurlega reynslu og hefur stýrt stórliði eins og Inter Milan og það væsir svo sannarlega ekki um mann hjá honum," sagði Hannes. Hollenska félagið Feyenoord hafði áhuga á Hannesi en ekkert varð úr því þar sem Viking fór fram á 15 milljón króna uppeldisbætur fyrir Hannes. Hann sagði að það þýddi ekkert að væla yfir því, reglur væru bara reglur og það væri lítið sem hann gæti gert. "Ég er mjög sáttur hér, tel að ég geti bætt mig sem knattspyrnumaður og vonandi fæ ég að spila meira en ég hef gert hingað til - það er auðvitað lykillinn að öllu saman."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×