Erlent

Langflestir frá Norðurlöndum

Langflestir þeirra ferðamanna sem saknað er af hamfarasvæðunum í Asíu komu frá Norðurlöndum. Um fimmtán hundruð Svía er saknað og ekki er vitað um afdrif sex hundruð Norðmanna. Að minnsta kosti sjö hundruð erlendir ferðamenn eru meðal þeirra sextíu þúsund manna sem staðfest er að látist hafi í hamförunum í Asíu. Ekki er vitað frá hvaða löndum hinir látnu eru en svo virðist sem stór hluti þeirra kunni að vera frá Svíþjóð. Um fimmtán hundruð Svía er saknað og staðfest er að minnst tíu Svíar hafi látist af völdum hamfaranna í Asíu. Utanríkisráðherra landsins sagði í dag að óttast væri að nokkur hundruð Svíar væru látnir og líklega hefðu ekki jafnmargir Svíar fallið í valinn í einu síðan farþegaskipið Estonia sökk árið 1994 með þeim afleiðingum að fimm hundruð Svíar létust. Alls voru á milli tuttugu og þrjátíu þúsund Svíar á hamfarasvæðunum á annan dag jóla, flestir þeirra í fríi í Taílandi. Stjórnvöld í Svíþjóð ætla að senda þrjár stórar farþegaþotur til Taílands til þess að ná í alla sænska ríkisborgara sem staddir eru á hamfarasvæðunum. Hið sama hyggjast stjórnvöld í Noregi gera en um sex hundruð Norðmanna er saknað af hamfarasvæðunum. Þá er tvö hundruð Finna saknað, sem og sextán Dana. Ekki er vitað um afdrif fjögur hundruð Tékka á svæðinu og í kringum hundrað manna frá Þýskalandi, Ítalíu og Bretlandi er saknað. Meðal þýskra ferðamanna á svæðinu var Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari landsins, en vitað er að hann komst heilu og höldnu úr hamförunum. Þá er nokkur hundruð manna sem dvöldu á frönsku hóteli í Taílandi saknað og vitað er að um 140 þeirra voru frá Frakklandi. Evrópusambandið hefur þegar ákveðið að verja vel á þriðja milljarði króna til uppbyggingar á hamfarasvæðunum í Suður- og Austur-Asíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×