Erlent

Hætt við kóleru og malaríu

Hjálp vegna hörmunganna í Asíu berst víða að og er að mörgu að hyggja. Hætta á smitsjúkdómum í kjölfar jarðskjálftanna eykst gífurlega vegna ástandsins á hörmungarsvæðunum. María Skarphéðinsdóttir sem er með meistaragráðu í heilsugæslulækningum í þróunarlöndum er nýkomin frá Asíu þar sem hún hefur starfað í eitt ár. Hún starfaði á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Suður-Asíu þar sem hún hafði umsjón með uppbyggingu heilbrigðisstarfs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Áður hefur hún unnið fyrir Rauða krossinn í Malavíu og Tanzaníu. Hvers vegna er hætta á sjúkdómum á svæðunum sem urðu fyrir flóðbylgjunni? Hættan á sjúkdómum kemur til vegna þess að vatnskerfi og skólpkerfi bresta. Þá hefur fólk misst húsnæði og er varnarlaust á berangri, oft í mjög erfiðum aðstæðum. Hvaða sjúkdómar geta komið upp? Sjúkdómar sem fyrir eru á þessum svæðum geta náð sér á strik í nýjum aðstæðum þar sem hið venjulega jafnvægi ríkir ekki. Það geta komið ýmsar niðurgangspestir eins og kólera. Þá er hætt við malaríu á svæðum þar sem mikið af vatni er skyndilega yfir stórum svæðum. Moskítóflugum sem bera malaríuna fjölgar. Hvað er hægt að gera? Óhjákvæmilega verður aukin tíðni sjúkdóma við slíkar aðstæður sem þarna eru núna. Hvort það nái faraldursmörkum veltur á því hversu fljótt aðstoðin berst, hversu viðeigandi hún er og hversu fljótt tekst til að koma grundavallarþörfum fólksins í lag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×