Erlent

Eyjar færðust tugi metra

Risajarðskjálftinn olli því að eyjar færðust til um marga kílómetra á hnettinum. Möndulhreyfingar jarðarinnar breyttust einnig, svo dagurinn hefur lengst. Stöðugt berast nýjar jarðfræðilegar upplýsingar frá skjálftasvæðinu. Nú hefur komið í ljós að smáeyjar við upptök hans hafa færst til um ótrúlegar vegalengdir í vesturátt, og hafa verið nefndar tölur allt upp í tugi og jafnvel hundruði metra. Páll Einarsson, prófessor í lífeðlisfræði, segir þetta stafa af spennulosun í upptökum skjálftans. Nú séu flekajaðrarnir að rétta úr sér aftur eftir uppsafnaða spennu í áratugi. Og eyjarnar hafa einnig hækkað um einn til þrjá metra. Og þessar gríðarmiklu jarðhræringar hafa orðið til þess að möndulhreyfingar jarðarinnar hafa breyst. Páll segir þetta það mikla massa að það hafi áhrif á snúningsmassa jarðarinnar. En menn þurfi ekki að hafa áhyggjur, þetta hafi ekki áhrif á lífríki jarðarinnar og snúningshraði jarðarinnar sé stöðugt að breytast af ýmsum ástæðum. Páll segir þetta sennilega óvenju stóran skell á stuttum tíma, en þó sé þetta í ætt við það sem við þekkjum. Líklega hefur hægt á snúningi jarðarinnar, sem hefur þau áhrif að dagurinn hefur lengst. Páll segir að hægi jörðin á sér verði dagurinn lengri, en styttri ef hún hraðar á sér. Hins vegar sé um míkrósekúndur að ræða og því finnum við ekkert fyrir þessu að öðru leyti en því að hvort sem er sé að vora á margföldum þessum hraða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×