Erlent

Neyðaraðstoð alls staðar að

Aðstæður á flóðasvæðunum við Indlandshaf eru víða slæmar. Neyðaraðstoð berst nú alls staðar að úr heiminum, bæði frá ríkisstjórnum og hjálparsamtökum. Á þeim svæðum sem verst urðu úti í hamfaraflóðunum hafa menn miklar áhyggjur af útbreiðslu hættulegra sjúkdóma. Hreint vatn er af skornum skammti og því aukast líkurnar á að fjöldi fólks smitist af sjúkdómum á borð við malaríu og ýmsum niðurgangspestum. Fólk er hungrað og því er kalt og aðstæður bágbornar. Neyðaraðstoð hófst strax í kjölfar skjálftanna og hafa hjálpargögn og peningar borist alls staðar að úr heiminum. Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans ætlar að leggja til að minnsta kosti rúmar fjögur hundruð milljónir króna og hefur sent hjálpargögn á svæðið. Evrópusambandið hefur boðist til að láta um þrjá milljarða króna af hendi rakna. Ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna eru þegar farnar á kreik og þá er ótalinn stuðningur fjölda ríkisstjórna landa á borð við Kína og Ástralíu. Söfnunarsími Rauða kross Íslands er 907 2020



Fleiri fréttir

Sjá meira


×