Erlent

Eyðilegging við Indlandshaf

Þúsundir manna fórust eftir að einn stærsti jarðskjálfti sögunnar reið yfir sunnanverða Asíu snemma í gærmorgun. Risavaxnar flóðbylgjur mynduðust í kjölfarið og ollu þær miklu tjóni á mönnum og munum. Vitað er um Íslendinga á skjálftasvæðunum en ekki er talið að nokkuð ami að þeim. Upptök skjálftans í gærmorgun voru skammt vestur af eyjunni Súmötru í Indónesíu en á þessum slóðum gengur svonefndur Indó-Ástralíufleki undir Evrasíuflekann með tilheyrandi umbrotum. Skjálftinn var 8,9 stig á Ricterkvarðanum og námu jarðskjálftamælar hann um allan heim, meðal annars hérlendis. Hefur skjálfti af þeirri stærðargráðu ekki mælst í um fjörtíu ár og aðeins eru dæmi um fjóra stærri skjálfta síðan mælingar hófust fyrir rúmri öld. Stærsti skjálfti sem mælst hefur varð við Chile árið 1960 en hann var 9,5 stig á Richter. Skjálftarnir í gær voru um 5000 sinnum öflugri en Suðurlandsskjálftarnir árið 2000 sem voru um 6,5 á Ricther. Við jarðskjálftann lyftist sjávarbotninn undir upptökunum þannig að gífurlegar flóðbylgjur mynduðust í kjölfarið. Sex metra háar öldurnar ferðuðust á ógnarhraða yfir Indlandshafið en brotnuðu svo á strandlengjum landanna beggja vegna Bengalflóa. Manntjón er talið mest á Sri Lanka en þar eru þúsundir sagðar hafa farist og margra er enn saknað. Líf í það minnsta einnar milljónar íbúa hefur færst verulega úr skorðum vegna hamfaranna. Svipað er uppi á teningnum á austurströnd Indlands þar sem vitað er að á þriðja þúsund manns týndu lífi. Á Maldíveyjum, eyjaklasa suður af Indlandi sem er um 2500 kílómetra frá upptökum skjálftans, varð mikið tjón vegna flóðanna en eyjarnar rísa hvergi hærra en 1,8 metra yfir sjávarmál. Strandhéruð þeirra landa sem næst eru skjálftaupptökunum, Taílands, Indónesíu og Malasíu, urðu sömuleiðis illa úti og þar er áætlað að þúsundir manna hafi farist. Talsvert er af erlendum ferðamönnum á skjálftasvæðunum og er fjölmargra saknað. Ekkert amar þó að Íslendingum sem eyða jólunum á þessum slóðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×