Erlent

5000 sinnum öflugri

Jarðskjálftinn við Súmötru varð vegna jarðflekahreyfinga. Ragnar Stefánsson jarðeðlisfræðingur segir að gífurleg orka leysist úr læðingi við slíkar aðstæður og geti flóðbylgjur sem myndast af þeim sökum borist þúsundir kílómetra. Hann telur enga hættu á slíkum skjálftum við Ísland. Jarðskjálftinn undan ströndum Súmötru varð í gærmorgun á þúsund kílómetra löngu misgengi en það er hluti af skjálftabelti sem teygir sig frá Indónesíu allt vestur að Miðjarðarhafi. Þarna gengur Indó-Ástralíuflekinn undir Evrasíuflekann með tilheyrandi umbrotum. Ragnar Stefánsson jarðeðlisfræðingur telur litlar líkur á fleiri stórum skjálftum á þessu stað í bili. Hins vegar kann skjálftinn í gær að auka líkur á skjálftum vestur eftir beltinu þar sem spenna er fyrir. Þannig má vera að stór skjálfti á Níkóbareyjum austur af Indlandi í gær tengist Súmötruskjálftanum. Þegar jarðskjálftar verða undir hafsbotninum við slík flekamót lyftist sjávarbotninn um nokkra metra eftir endilangri sprungunni og ryður frá sér ókjörum af sjó. Því mynduðust margra metra háar flóðbylgjur í kjölfar skjálftans með hræðilegum afleiðingum. Ragnar segir þessar bylgjur geta ferðast þúsundir kílómetra en þeim þverr krafturinn eftir því sem fjær dregur upptökunum. Sé litið til orkulosunar þá er Súmötruskjálftinn um 5000 sinnum meiri en Suðurlandsskjálftarnir árið 2000. Hins vegar er munurinn á áhrifunum ekki svo mikill að öðru leyti en því að svæðið sem varð fyrir miklu tjóni í Suðurlandsskjálftunum var margfalt minna en svæðið í skjálftanum í gær. Ragnar telur engar líkur á að slíkar hamfarir geti orðið hérlendis, því jarðskorpan hér er þynnri og bindur því minni orku. "Þunn spýta miðað við þykkan planka," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×