Erlent

Flest bendir til sigurs Júsjenkó

Meira en 12 þúsund kosningaeftirlitsmenn frá þrjátíu og einu landi fylgdust með endurteknum forsetakosningum í Úkraínu í dag. Útgönguspár munu liggja fyrir fljótlega, en flest bendir til að stjórnarandstæðingurinn Viktor Júsjenkó muni fara með sigur af hólmi. Meira en helmingi fleiri kosningaeftirlitsmenn voru til staðar í dag en í fyrri kosningunum þann 21. nóvember. Það ásamt úrskurði stjórnlagadómstóls Úkraínu í gær um að heimila utankjörstaðaatkvæði ætti að minnka til muna líkurnar á að deilurnar eftir síðustu kosningar endurtaki sig. Deilurnar síðast sneurust ekki síst um utankjörstaðaatkvæði og er vonast að úrskurður stjórnlagadómstólsins í gær verði til þess að útiloka kærur frá þeim sem býður lægri hlut í kosningunum. Flest bendir til þess að Viktor Júsjenkó beri sigur úr bítum. Í síðustu könnunum hefur hann mælst með allt að 14% meira fylgi en Viktor Janúkóvitsj, sem sigraði fyrri kosningarnar, sem hæstiréttur Úkraínu ógilti síðan, þar sem sýnt þótti að brögð hefðu verið í tafli. Þúsundir stuðningsmanna Júsjenkós, söfnuðust saman á götum Kænugarðs, höfðuborgar Úkraínu, í dag, þrátt fyrir gríðarlegt frost og létu þeir vel í sér heyra þegar Júsjenkó gekk sigurreifur af kjörstað. Júsjenkó sagðist sannfærður um sigur og að dagurinn yrði gleðidagur í sögu Úkraínu Kjörstöðum í Úkraínu lokar fljótlega og útgönguspár ættu að liggja fyrir upp úr klukkan sjö að íslenskum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×