Erlent

Rumsfeld í Írak

Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandríkjanna, birtist í óvæntri heimsókn í borginni Mósúl í Írak í morgun, þremur dögum eftir eina mannskæðustu árásina á Bandaríkjaher í Írak til þessa. Komið hefur í ljós að árásarmaðurinn var klæddur herbúningi írakska hersins þegar hann framdi ódæðið. Tuttugu og tveir létust í árásinni og um sextíu særðust, og er þetta mannskæðasta árásin sem gerð hefur verið á bandaríska herstöð í Írak síðan ráðist var inn í landið. Árásarmaðurinn virðist hafa komist í gegnum nákvæmar skoðanir á bakgrunni þeirra sem starfa fyrir íröksku og bandarísku öryggissveitirnar. Embættismaður innan Bandaríkjahers segir að maðurinn hafi að líkindum verið klæddur herbúningi írakska öryggissveita, en þær hafa unnið með Bandaríkjaher í aðgerðum gegn andspyrnumönnum. Hingað til hefur ekki borið á spennu milli sveitanna, en það kann að breytast í kjölfar þessa. Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Donald Rumsfeld, birtist í óvæntri heimsókn í Mósúl í morgun. Heimsótti hann særða hermenn á sjúkrahúsi, og ávarpaði fótgönguliða hersins, en þeir óttast margir um öryggi sitt eftir árásina. Hann sagði þeim að þó að baráttan við uppreisnarmenn hefði reynst erfið væri hann sannfærður um að það tækist að brjóta uppreisnina á bak aftur, og lofaði hermönnunum að seinna í lífi sínu myndu þeir líta til baka með stolti yfir að hafa tekið þátt í baráttunni í Írak. Washinton Post greinir frá því í dag að Colin Powell varnarmálaráðherra, hafi sagt bæði Bush og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, í síðasta mánuði, að það væru of fáar hersveitir í Írak. Innan við þremur vikum síðar tilkynnti varnarmálaráðuneytið að hermönnum yrði fjölgað um tólf þúsund. Þar með yrðu eitt hundrað og fimmtíu þúsund bandarískir hermenn í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×