Lífið

Meistarnám eftir grunnnám í KHÍ

Stefnt er að því að sem flestir úrskrifaðir nemendur Kennaraháskóla Íslands ljúki meistaranámi. Námið verður í boði frá árinu 2007 í beinu framhaldi af þriggja ára námi í Kennaraháskóla Íslands. Útskrifaðir stúdentar hafa hingað til einungis getað stundað meistaranám í fjarnámi eða hlutanámi eftir minnst tveggja ára starfsreynslu. Ólafur Proppé, rektor KHÍ, segir víðtæka stefnumörkun háskólans til fimm ára hafa verið samþykkta á fundi háskólaráðs á þriðjudag. Endurskipuleggja eigi allt nám við skólann, grunnnám og framhaldsnám. Ólafur segir segir mikinn áhuga á meistaranámi. Nemendur vilji helst hefja námið fyrir árið 2007 en skipulagning þess taki tíma: "En það er hugsanlegt að við byrjum á einhverjum hluta þess fyrr." Alls hafi 111 nemendur háskólans þegar útskrifast úr meistaranámi með gamla laginu. Enginn hafi lokið doktorsnámi, sem sé þriggja ára viðbót við meistaranám, en nemendur séu nú um átta. Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir að væntanlega fái sá sem ljúki meistaranámi leyfisbréf til kennslu í framhaldsskólum. Lengi hafi verið haldið á lofti að lengja þurfi kennaranám: "Námið er víða í Evrópu orðið fimm ár. Það yrði þá sambærilegt því sem Ólafur Proppé er að leggja til." Meistaranám veiti kennurum launahækkun um tvo launaflokka eða 12 til 14 þúsund krónur á mánuði. Ólafur segir rekstrarkostnað við breytingarnar aukast með fjölgun nemenda og kennara. Fjármagn hafi ekki verið tryggt því það sé ekki hægt mörg ár fram í tímann: "Við erum búin að kynna breytingarnar fyrir menntamálaráðuneytinu. Við vonumst til þess að fá hluta af þeirri aukningu sem við væntum að verði á háskólastiginu á næstu árum. Þetta eru áætlanir okkar og svo verðum við að ræða það á hverju ári við ráðuneytið." Engin svör fengust hjá menntamálaráðuneytinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.