Erlent

Pyndingar héldu áfram lengi

Komið hefur í ljós að pyndingar bandarískra hermanna á írökskum föngum héldu áfram löngu eftir að Abu Ghraib hneykslið varð opinbert. Svo virðist sem þessar pyndingar hafi bæði verið víðtækari og að fleiri háttsettir embættismenn í Washington hafi vitað um málið, en áður var talið. Mannréttindasamtökin American Civil Liberties hafa höfðað mál á hendur Bandaríkjastjórn til að fá úr því skorið hvort kerfisbundið sé brotið á föngum í haldi stjórnarinnar. Margvísleg skjöl og minnisblöð frá alríkislögreglunni FBI frá síðustu tveimur árum hafa verið lögð fram í þessu dómsmáli og lesa má úr þessum skjölum að pyndingar hafi verið mun víðtækari og kerfisbundnari en hingað til hefur verið viðurkennt. Sem dæmi má taka að í minnisblaði sem dagsett er tveimur mánuðum eftir að upp komst um pyndingarnar í Abu Ghraib, er því lýst hvernig fangar í Írak eru barðir, teknir kyrkingataki og logandi sígarettum stungið inn í eyrun á þeim. Jafnframt þykir ljóst að stór hópur embættis- og stjórnmálamanna í Washington hafi vel vitað hvað fór fram í Írak þó enginn yfirmaður hafi enn axlað ábyrgð því aðeins nokkrir lágt settir hermenn hafa verið dregnir fyrir dómstóla fyrir Abu Ghraib málið. Þessi skjöl fjalla reyndar einnig um meðferð fanganna í Guantanamo herstöðinni á Kúbu og lýsingarnar þaðan eru ekki síður hrottalegar. Þeir fangar eru reglulega hlekkjaðir á höndum og fótum, neitað um mat og svefn og meinað að fara á klósettið svo þeir þurfa að pissa og kúka í buxurnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×