Erlent

Hörð skilyrði fyrir viðræðum

Hörð skilyrði eru fyrir viðræðum Evrópusambandsins við Tyrki um aðild. Tyrkir eru fúlir og enn er þjarkað um skilyrðin. Innan sambandsins er heldur ekki eining um hugsanlega aðild Tyrklands. Tyrkir verða að viðurkenna ríkisstjórn Kýpur-Grikkja í Nikósíu en á Norður-Kýpur ráða Kýpur-Tyrkir ríkjum. Þetta er meginskilyrðið fyrir aðildarviðræðum við Tyrki og stór biti fyrir þá að kyngja. Uppfylli þeir þetta skilyrði hefjast viðræður í október á næsta ári. Tyrkir vilja ganga í sambandið en höfðu fyrirfram lýst því yfir að þeir gætu ekki sætt sig við ýmis skilyrði sem rædd voru þar sem þau væru ósanngjörn og niðurlægjandi. Að loknum fundi með Jan Peter Beklenende, forsætisráðherra Hollands, í gær kvaðst Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, nokkuð bjartsýnn en í morgun hafa erlendar fréttastofur haft eftir ónafngreindum tyrkneskum embættismönnum að Tyrkir séu síður en svo sáttir við þetta skilyrði. Ef að verður er einnig hugsanlegt að hömlur verði settar á frjálst flæði verkafólks frá Tyrklandi, enda óttast ráðamenn í mörgum Evrópusambandsríkjum flóðbylgju ódýrs vinnuafls frá Tyrklandi. Ekki ríkir heldur einhugur um hvort Tyrkland eigi heima í Evrópusambandinu. Bretar og Þjóðverjar eru talsmenn aðildar en önnur ríki eru sum hver á því að Tyrkland sé of stórt, of fjölmennt, of fátækt og of menningarlega ólíkt sambandsríkjunum til að falla inn í hópinn. Bent er á að það sé múslímaríki og verði það hluti Evrópusambandsins eigi sambandið landamæri að Sýrlandi, Írak og Íran. Stuðningsmenn aðildar segja á móti að aðild Tyrklands sé til þess fallinn að breiða út stöðugleika og öryggi í heimshluta þar sem ekki fer mikið fyrir slíku. Það sýni einnig fordómaleysi og geti stuðlað að betri samskiptum við múslímaríki. Króötum var í morgun einnig boðið að ganga til viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Viðræðurnar eiga að hefjast í apríl á næsta ári, að því tilskildu að Króatar starfi með stríðsglæpadómstólnum í Haag. Búlgaríu og Rúmeníu verður einnig boðið til viðræðna, með það að markmiði að löndin gangi í sambandið árið 2007.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×