Lífið

Fókus býður í bíó

Það er kominn föstudagur og Fókus fylgir með DV í dag. Þar er m.a. að finna ítarlega úttekt á hinni svölu Ocean´s Twelve og lesendum blaðsins er boðið á myndina. Þá fór Fókus á bifreiðaverkstæði og í tískubúð til að komast að því hverjar væru bestu bækur og plötur ársins. Tekið er viðtal við íslenskan færeying sem gefur út fjórar plötur með sjálfum sér fyrir jólin og tónlistarmanninn Stranger, sem þykir ein bjartasta vonin í tónlistarlífinu. Forsíðuna þessa vikuna prýða plötusnúðagellurnar Ellen og Erna. Í Fókus í dag er að finna bíómiða sem lesendur geta klippt út, komið með í afgreiðslu Fókus í Skaftahlíð 24 og fengið miða á Ocean´s Twelve. Takmarkaður fjöldi, fyrstir koma fyrstir fá. Nú, þremur árum eftir að Ocean´s Eleven fór sigurför um heiminn er komið að því að Ocean´s Twelve reyni að leika það eftir. Leikararnir eru þeir sömu og í fyrri myndinni, þótt ótrúlegt sé enda mjög margir stórleikarar hér á ferð. Brad Pitt, George Clooney, Julia Roberts, Matt Damon, Andy Garcia, Don Cheadle og Bernie Mac leika öll sömu karaktera og í fyrri myndinni. Við bætast svo Catherine Zeta-Jones sem leikur Isabel Lahiri, rannsóknarlögreglukonu og hinn útursvali Frakki Vincent Cassel sem leikur forríkan glaumgosa sem stelur spennunnar vegna. Engin James Bond mynd Myndin er tekin upp í Chicago, Amsterdam, París, Monte Carlo, Lake Como, Róm og Castellamare del Golfo á Sikiley. Leikstjórinn, Steven Soderbergh og framleiðandinn Jerry Weintraub vildu að Ocean´s twelve yrði ekkert lík þeirri fyrri og lögðu sig alla fram um að gera hana allt öðruvísi. Það er því ekkert líkt með leikmyndum myndanna tveggja. Það er allt gert öðruvísi, öll föt karakteranna eru í nýjum stíl. Meira að segja tónlistin er ekkert eins og í þeirri fyrri og það þykir óvenjulegt. Oftast er tónlist eitthvað lík í seríum mynda eða þá að sama stef er notað. Það þarf nú ekki að horfa á nema tvær James Bond mynd til að komast að því. Allt ömurlegt "Við fórum til ömurlegra staða. Það var viðbjóðslegur matur, sérstaklega á Ítalíu og félagsskapurinn var hryllilegur. Þetta var allt saman virkilega niðurdrepandi," sagði Brad Pitt í viðtali þegar hann gantaðist með öll þessi ferðalög og þennan stórbrotna félagsskap. Þessi leikarahópur er þekktur fyrir mikið fjör og eru mikið fyrir að stríða hvort öðru. Til dæmis er ein sena þar sem Pitt þarf að hlaupa um borð í flugvél með töskur. Clooney var þá búinn að fylla töskurnar af mjög þungu dóti. Þannig að þegar Pitt tók þær upp þá rétt hafði hann það af að komast að flugvélinni. Bandbrjálaður Benedict Í Ocean´s Eleven rænir gengið 160 milljónum dollara af spilavítiseigandanum Terry Benedict sem leikinn er af Andy Garcia. Í Ocean´s twelve er búið að kjafta í Benedict þannig að hann veit núna hverjir stálu frá honum. Hann er ekkert ánægður með þetta og hyggur að sjálfsögðu á hefndir. Ocean gengið hefur ekkert hist í þrjú ár en verða nú að koma saman til að ákveða hvað skal gera í stöðunni. Það er mismunandi hvernig þau eru búin að eyða þessum þremur árum en þau eiga þó öll eitt sameiginlegt: þeim líður best á meðan þau skipuleggja og standa í ránum.   Þau eru semsagt með brjálaðan Benedict á hælunum og þau komast líka að því að það eru fleiri á eftir þeim en bara hann. Í Fókus í dag er að finna bíómiða sem lesendur geta klippt út, komið með í afgreiðslu Fókus í Skaftahlíð 24 og fengið miða á Ocean´s Twelve. Takmarkaður fjöldi, fyrstir koma fyrstir fá.Myndin er sýnd í Sambíóunum og Háskólabíó.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.