Erlent

Friðarvonirnar fuðruðu upp

Friðarvonir í Miðausturlöndum fuðruðu upp í gærkvöldi þegar sprengja palestínskra hryðjuverkamanna grandaði fimm ísraelskum hermönnum. Svar Ísraelsmanna var ljóst: auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.  Árásin í gærkvöldi var greinilega vel skipulögð og til þess ætluð að fá sem mesta athygli. Hamas-liðarnir útbjuggu myndband sem sýnir hvernig þeir grófu göng undir herútstöðina, fylltu göngin með einu og hálfu tonni af sprengiefni og sprengdu svo allt í loft upp. Ekki færri en fimm hermenn fórust og tíu særðust. Þetta er mannskæðasta hryðjuverkið frá því að Jassir Arafat lést. Ísraelsmenn brugðust ókvæða við, skutu átta flugskeytum á skotmörk í Gasa-borg og hermenn skutu byssumann úr röðum Hamas til bana. Ísraelskir fjölmiðlar segja frekari hefndaraðgerða að vænta á næstu dögum. Þetta hefur dregið úr vonum um að friðarferlið þokist af stað á ný, en úr röðum forsvarsmanna Palestínumanna sem og Ísraelsmanna bárust sömu frasar og svo oft áður. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, sagði árásina mjög harkalega og að þessa dagana gerðu Palestínumenn árásir nánast daglega. „Þróunin framundan er undir því komin að Palestínumenn skilji að þeir verða að berjast gegn hryðjuverkum,“ sagði Sharon. Saeb Erekat, palestínskur ráðherra, sagði einu leiðina til að rjúfa þennan vítahring ofbeldis vera að endurvekja marktækt friðarferli með það að markmiði að binda enda á hernám Ísraela.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×