Innlent

Var málið rætt 18. mars?

Íraksmálið komst óvænt á dagskrá á Alþingi í gær, skömmu áður en alþingismenn fóru í sex vikna jólafrí. Forsætisráðherra sagði þá að Íraksmálið hefði verið rætt á ríkisstjórnarfundi 18. mars 2003 og sendiráði Bandaríkjanna tilkynnt um stuðning Íslands við hernaðaraðgerðir í framhaldi af því. Alþingi afgreiddi 20 stjórnarfrumvörp í gær á síðasta degi þingsins fyrir jólafrí alþingismanna. Síðast á dagskrá var umdeilt frumvarp um skattalækkanir sem samþykkt var með atkvæðum þrjátíu stjórnarliða. En Íraksmálið komst óvænt á dagskrá síðdegis í þinginu. Sem og áður var rætt um aðdraganda þess að Ísland fór á lista hinna viljugu þjóða sem studdu innrásina. Halldór Ásgrímsson segir að málið hafi verið á dagskrá ríkisstjórnarfundar 18. mars 2003. Þá hafi legið fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ekki aðra ályktun um Írak þótt hann hefði sjálfur kosið að það hefði orðið. Halldór sagði að þessi fundur hafi orðið til þess að ákveðið hafi verið að styðja nauðsynlegar aðgerðir undir stjórn Breta og Bandaríkjanna um að afvopna Saddam Hussein og sendiherra Bandaríkjanna hafi verið tilkynnt um það. Halldór Ásgrímsson sagði ennfremur að aðdragandi ákvörðunar um pólitískan stuðning Íslendinga við aðgerðir Bandarikjamanna og Breta hefði verið ræddur í utanríkismálanefnd 21. mars. Ráðherrann sagði málið hreinan skrípaleik af hálfu stjórnarandstöðunnar. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri Grænna, sagði hins vegar að í Kastljósi hefði Halldór sagt að engin ríkisstjórnarsamþykkt hefði verið gerð um málið og ljóst væri að utanríkismálanefnd þyrfti að fá fundargerðir þessa stjórnarfundar sem um ræddi. Og Steingrímur J Sigfússon vísaði því á bug sem fyrr að samráðsskyldu við utanríkismálanefnd hefði verið sinnt. Hann sagði tímabært að létta trúnaði af fundargerðum utanríkismálanefndar. Þá þyrfti að gera nákvæma úttekt á símtölum, samtölum, fundum og orðsendingum sem farið hafi á milli stjórnarráðsins og Bandaríkjanna dagana 17.-20. mars árið 2003



Fleiri fréttir

Sjá meira


×