Erlent

Dioxín eitrun

Orsök hinnar dularfullu veiki sem Júsénkó, forsætisráðherra Úkraínu hefur þjáðst af undanfarnar vikur, er díoxíneitrun. Líklegt er að honum hafi verið byrlað eitur. Íslenskur eiturefnasérfræðingur segir efnið bráðdrepandi í mjög litlum skömmtum. Það var í september sem Júsénkó fór fyrst að kenna sér meins. Á aðeins tveim mánuðum hefur útlit hans umbreyst algerlega, auk þess sem hann þjáist af margvíslegum einkennum í ýmsum líffærum í líkamanum. Austurrískir læknar hafa undanfarið rannsakað Júsénkó, og tilkynntu í dag að orsökin væri díoxín eitrun. Í blóði hans fannst díoxín í þúsundföldu magni miðað við það sem eðlilegt telst. Læknarnir segja að auðvelt væri að setja slíkt magn af díoxíni í súpuskál. Heilsufarsástand Júsénkós sé nú viðunandi og magn díoxíns í líkama hans væri nú eðlilegt. Það sem vitað sé er að Júsjenkó hafi fengið dioxin í líkamann, líklega í gegnum munninn, en það sé hins vegar lögregluyfirvalda að komast að því hvort einhver hafi eitrað fyrir honum af ásettu ráði. Sérfræðingar segja að eitrið valdi varanlegum skaða, en eitthvað af húðbreytingunum gætu gengið til baka á löngum tíma. Díoxín myndast sem aukaafurð til dæmis við sorpbrennslu og framleiðslu skordýraeiturs. Það finnst því víða í náttúrunni og hefur safnast fyrir í fæðukeðjunni. Kristín Ólafsdóttir, eiturefnasérfræðingur, segir að það þurfi innan við 1 míkrógramm af efninu til þess að drepa rottu eða hamstur. Það sé því ekki nema eðlilegt að mikil hræðsla sé við efnið. Það sé bæði mjög bráðverkandi, en valdi líka langtímaskaða eins og krabbameini. Kristín segir efnið aldrei hafa verið framleitt, heldur hafi það myndast óvart. Hún segir einu leiðina til þess að verða sér út um efnið að fá það í gegnum rannsóknarstofu. Júsénkó hefur sakað yfirvöld í Úkraínu um að reyna að eitra fyrir sér í aðdraganda kosninganna. Þá segir eiginkona hans að margoft hafi verið búið að hóta þeim hjónum fyrir kosningarnar og ljóst sé að mörgum stafi ógn af eiginmanni sínum og þeim breytingum sem hann myndi gera á Úkraínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×