Sport

Framlag Gunnars mikilvægt

Gunnar Einarsson, fyrirliði körfuboltaliðs Keflavíkur, átti frábæran leik þegar Keflvíkingar hófu þátttöku sína í Evrópukeppninni með 93-74 sigri á franska liðinu Reims í Keflavík á miðvikudaginn var. Gunnar skoraði alls 28 stig í leiknum, þar af 22 í fyrri hálfleik, auk þess að spila mjög góða vörn á frönsku atvinnumennina sem komust lítið áleiðis gegn einbeittu keflvísku liði. Gunnar er reyndasti Íslendingurinn í Evrópukeppni en þetta var hans 14. Evrópuleikur og það mátti vel sjá í byrjun leiks að þar færi leikmaður sem vissi út í hvað hann var að fara. Gunnar skoraði þannig 13 stig í fyrri hálfleik og nýtti 6 af 7 þriggja stiga skotum sínum fyrir hlé en Keflavíkurliðið náði upp 20 stiga forskoti í fyrri hálfleik og hafði yfir 53-33 í leikhléi. Framlag Gunnars í leiknum varð til þess að Keflavíkurliðið gat unnið franskt atvinnumannalið með 19 stigum þrátt fyrir að annar atvinnumaður liðsins (Michael Mathews) skoraði aðeins sex stig. Keflavíkurliðið er eins og í fyrra á fullu á mörgum vígstöðum bæði heima og erlendis en í fyrravetur náði liðið metárangri í Evrópukeppni auk þess að vinna bæði Íslandsmótið og bikarkeppnina. Keflavík spilaði alls 52 leiki í mótum á vegum KKÍ eða FIBA í fyrravetur og þar er athyglisvert að sjá hversu miklu máli framlag fyrirliðans skiptir liðið. Gunnar skoraði 15 stig eða meira í ellefu af þessum 52 leikjum og Keflavíkurliðið vann 10 af þeim eða 90,9% þeirra. Evrópuleikurinn í vikunni var síðan þriðji leikur vetrarins sem Gunnar skoraði 15 stig eða meira og þeir hafa allir unnist. Tölfræðin sýnir það því vel hversu mikilvægt er fyrir Keflvíkinga að fyrirliðinn sé í góðu formi því liðið hefur unnið 13 af síðustu 14 leikjum sínum sem hann hefur skorað 15 stig eða meira. Það er aðeins úrslitaleikur Hópbílabikarsins gegn Njarðvík í fyrra sem sker sig út úr. Keflavík var þá reyndar með unnin leik, leiddi með 15 stigum fyrir síðasta leikhlutann en varð að sætta sig við tap þrátt fyrir að Gunnar skoraði 17 stig í leiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×