Innlent

Fá ríflega 16% hækkun

Sjómenn fá ríflega sextán prósenta launahækkun samkvæmt nýjum kjarasamningi sem var undirritaður í dag. Það tók samninganefndir sjómanna og útvegsmanna tíu mánuði að komast að samkomulagi um nýjan kjarasamning og voru fulltrúar sjómanna, farmanna og fiskimanna og útvegsmanna því í hátíðarskapi þegar þeir mættu til að skrifa undir. Samningurinn mun taka gildi 1. janúar 2005 og fá sjómenn alls 16,25 % launahækkun, miðað við lok samningstímans í janúar 2008. Sjómenn fá aukin lífeyrisréttindi og tekið er á uppsagnarfresti, auk þess sem ákvæði eru um löndunarfrí. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins segist telja að um áfangasigur sé að ræða og samningarnir séu góðir fyrir sjómenn. Rétt sé að taka fram að verði samningurinn samþykktur verði ekki hreyft við sjómannaafslættinum á samningstímanum. Árni Bjarnason, forseti FFSÍ segist telja að menn séu komnir í takt við tímann og nú sé fyrst hægt að sækja fram. Friðrik J. Arngrímsson, formaður LÍU, segist telja það tímamót að loksins sé kominn á friður. Héðan í frá verði vart verkbönn og verkföll.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×