Innlent

Kristinn markaði stefnuna

Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, markaði, að mati Samkeppnisráðs, þá stefnu sem einkenndi alla samkeppni á olíumarkaði í heilan áratug, en hann hóf störf hjá Skeljungi árið 1990. Kristinn taldi ekki æskilegt að samkeppnin yrði of hörð á markaðnum. Í ítarlegri skýrslu Samkeppnisráðs um ólögmætt samráð olíufélaganna kemur fram að skömmu áður, eða um það leyti, sem miklar breytingar urðu á viðskiptaumhverfi olíufélaganna, hafi nýir menn sest í forstjórastólanna. Kristinn Björnsson, eiginmaður Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, settist í stól forstjóra Skeljungs árið 1990. Samkeppnisráð telur hann hafa slegið þann tón sem einkenndi alla samkeppni á olíumarkaðnum í meira en heilan áratug eftir að hann tók til starfa. Í skýrslu Samkeppnisráðs um þátt Kristins í ólöglegu samráði olíufélaganna segir meðal annars:  „Hann setti fram það viðhorf að ekki væri æskilegt að stunda of harða samkeppni á olíumarkaðnum." Samkeppnisráð bendir á minnisblað sem Kristinn tók saman eftir fund með forstjóra OLÍS í ágúst 1990 þar sem hann meðal annars: „.......lýsti þeirri skoðun sinni að sjálfsagt væri að ræða málin og fara yfir þau, þó svo ljóst væri að eftir sem áður yrði samkeppni milli félaganna um viðskipti. Hins vegar væri óþarfi að keyra samskipti milli félaganna út í þær öfgar, að allir biðu tjón af." Samkeppnisráð bendir á að vegna umræðu, sem varð í kjölfar úrskurðar Samkeppnisstofnunar um sölufélag garðyrkjumanna, um nauðsyn þess að skoða meint samráð olíufélaganna, hafi forstjóri Skeljungs, með tölvupósti, boðað forstjóra hinna olíufélaganna til fundar í húsakynnum Skeljungs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×