Innlent

Hylmt yfir samráð og gögnum eytt

Olíufélögin reyndu skipulega að hylma yfir ólöglegt samráð sitt og eyða mikilvægum gögnum, samkvæmt Samkeppnisráði. Þau áttu í tíðum og skipulögðum samskiptum og lykilmenn í félögunum skiptust á skoðunum og upplýsingum og sendu athugasemdir og tillögur sín á milli. Þrátt fyrir að olíufélögunum væri bannað á sínum tíma að hafa samráð um gerð tilboða, hittust forstjórar félaganna, strax árið 1991, til að koma sér saman um tilboð vegna útboða á olíuviðskiptum, og ræða ýmis mál sem vörðuðu verðlagningu og álagningu. Í skýrslu Samkeppnisráðs kemur fram að á árunum 1990 til 1993, í tengslum við breytingar á rekstrarumhverfinu olíufélaganna og á forystusveit þeirra, hafi myndast grunnurinn að því margþætta ólögmæta samráði félaganna, sem einkenndi rekstur þeirra að minnsta kosti til desember 2001. Í tæplega þúsund síðna skýrslu Samkeppnisráðs segir meðal annars að forstjórar félaganna hafi ákveðið verklag eða samskiptamáta sín á milli, til að tryggja framgang samráðsins. Þannig ræddu forstjórarnir um eftirfarandi: „Eins og við höfum oft rætt um er áríðandi að standa saman um að láta viðskiptavini okkar ekki komast upp með að ljúga viðskiptatilboðum upp á okkur." Eftir að OLÍS ætlaði að setja upp gasolíuafgreiðslu á Bíldudal árið 2000, sendi forstjóri Olíufélagsins forstjóra OLÍS tölvupóst vegna málsins og sagði: „Mér finnst að þú ættir að athuga hvort þetta er réttur leikur hjá ykkur. Við munum að sjálfsögðu fara inn á staði hjá ykkur til að jafna leikinn. Boltinn er því hjá ykkur." Í tölvupósti sem forstjóri OLÍS sendi fjármálastjóra félagsins árið 1997 segir: „Reynsla í verðlagsmálum og verðbreytingum segir mér að þetta mál verði aldrei leyst í gegnum síma eða með einhverjum skilaboðum. Eina leiðin er að ná viðkomandi aðilum á fund og kortleggja lausnina og láta síðan forstjórana samþykkja það á forstjórafundi." Það er niðurstaða Samkeppnisráðs að stjórnendur olíufélaganna, sem hafi skipulega reynt að leyna lögbrotunum, hafi takmarkað samkeppni á milli félaganna, til að bæta hag þeirra á kostnað almennings, annarra fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×