Innlent

Fjölmiðlafrumvarpið úr sögunni?

Ritstjóri Frjálsrar verslunar segist líta svo á að fjölmiðlafrumvarpið sé endanlega dautt eftir að Norðurljós urðu dóttturfélag Og Vodafone í gær. Þó að forsendur frumvarpsins séu enn til staðar, myndi það nú kalla á slíkar uppstokkanir, að enginn leggi í slíkt. Jón G. Haukson segir stóru tíðindin í kaupum Og Fjarskipta á 90 prósenta hlut í Norðurljósum í gær þau að Jón Ásgeir Jóhannesson sé á undan áætlun með áform sín um að setja Norðurljós á hlutabréfamarkað. Það að fyrirtækið fari á markað, ásamt þeim tilfærslum sem kaupin hafa í för með sér geri það að verkum að útilokað sé að lagt verði fram nýtt fjölmiðlafrumvarp í ætt við það sem lagt var fram í fyrra. Jón segist ekki sjá fyrir sér að nokkur maður ætli sér að rífa í sundur Símann og Skjá Einn, Norðurljós og Og Vodafone og loks Norðurljós og Fréttablaðið frá hvort öðru, allt í einum rikk. Hann segist því líta svo á að fjölmiðlafrumvarpið sé endanlega úr sögunni og fyrirtækin hafi fest sig í sessi. Jón segir Baug enn ráðandi í Og Vodafone og því séu forsendur fjölmiðlafrumvarps ekki brostnar, en hann segist enga trú hafa á því að af slíku frumvarpi verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×