Skoðun

Halldór og samstaðan

Umræðan - Óskar Stefánsson formaður BSF. Sleipnis Það var broslegt að heyra í Halldóri Björnssyni forseta Starfgreinasambands Íslands í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins mánudaginn 11. október sl. Þar fór hann mikinn og lýsti furðu sinni á því að félagar hans á Eskifirði skyldu ekki vilja sýna Starfsgreinasambandinu samstöðu og neita að landa úr togaranum Sólbaki EA-7. Árið 2000 átti Bifreiðastjórafélagið Sleipnir í harðvítugum vinnudeilum við atvinnurekendur sem lauk með undirritun kjarasamnings í júlí 2001. Þá var Bsf. Sleipnir með beina aðild að Alþýðusambandi Íslands en var vikið úr ASÍ ári síðar eða árið 2002. Þegar ekkert gekk að semja hjá Sleipni þótti nokkrum aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands ástæða til þess að hafa afskipti, óumbeðnir, af vinnudeilu félagsins og fóru að semja við vinnuveitendur okkar þvert ofan í okkar kjaraviðræður og gerðu nokkur félög kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Bifreiðastjórafélagið Sleipnir mótmælti þessum samningum harðlega bæði á fundum og bréflega við Starfsgreinasambandið og ASÍ og fengu að lokum það svar frá ASÍ að "ekki væri sérstök ástæða til aðgerða af hálfu miðstjórnar"; það væri öllum frjálst að gera kjarasamning við hvern sem er hvort sem aðrir kjarasamningar væru í gildi eða ekki. Þegar Halldór fór í þetta umrædda viðtal hefur hann sennilega verið búinn að gleyma því að við óskuðum eftir samstöðu hjá honum og hans félögum, en í stað þess að verða við okkar bón stóð hann manna fremst í því að sundra samstöðunni meðal bifreiðastjóra. Getur hann furðað sig á samstöðuleysi annarra verkamanna þegar hann sjálfur hefur staðið að jafn mikilli sundrungu eins og að framan er greint? Svar mitt er að minnsta kosti nei. Í framhaldinu hafa flest fyrirtæki sem við höfðum gert samninga við, gert það að skilyrði við ráðningu bifreiðastjóra að þeir séu ekki félagsmenn í Sleipni. Þessi yfirlýsing Halldórs Björnssonar og mótmæli miðstjórnar Alþýðusambands Íslands kemur stjórn Sleipnis spánskt fyrir sjónir og fer ég hér með fram á það við ASÍ að það svari því opinberlega hvað það er sem hafi orðið til þessarar afstöðubreytingar. Er framferði á borð við það sem ASÍ gagnrýnir nú löglegt ef það eru aðilar að ASÍ sem fremja gerninginn? Þetta framferði olli Sleipni óbætanlegu tjóni og spillti algerlega samningsstöðu félagsins.



Skoðun

Sjá meira


×