Sport

Uppstokkun í Árbænum

"Ég átti ekki von á öðru en að skrifa undir nýjan samning og halda mínu striki með liðinu," segir Sævar Þór Gíslason, knattspyrnumaður. Knattspyrnudeild Fylkis hefur ákveðið að endurnýja ekki samninga við hann og Þórhall Dan Jóhannsson og kom það þeim báðum í opna skjöldu. "Ég viðurkenni fúslega að ég varð bæði sár og hissa. Það var ekki einu sinni haft fyrir því að svara gagntilboði mínu heldur strax skellt í lás eins og þetta hafi allan tímann verið áætlunin. Ég veit reyndar ekkert hvað vakir fyrir stjórn Fylkis en þetta er undarlegt að sýna leikmönnum sem hafa leikið í fjölda ára með liðinu þessa framkomu." Þórhallur Dan Jóhannsson tók í sama streng. "Þeir buðu mér fyrst samning þar sem ég lækkaði í launum og ég skaut fram gagntilboði en því var ekki svarað heldur aðeins þakkað fyrir samstarfið." Mörg félög hafa þegar haft samband við þá félaga en hvorugur þeirra vill gefa upp nöfn að svo stöddu. Vitað er að FH hefur mikinn hug á að fá Sævar til liðs við sig og Valsmenn hafa sýnt Þórhalli mikinn áhuga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×