Skoðun

Stjórnunarvandi og forystufælni?

Kennaraverkfallið - Jónas Gunnar Einarsson Íslendingar súpa nú sama súra seyðið og Bretar gerðu í skólamálum fyrr á árum, eftir að hafa samþykkt yfirfærslu millistjórnunar og fjármögnunar á grunnskólamenntun í hendur sveitarstjórnum. Þá kom í ljós eins og hérlendis að rekstur grunnskóla á um það bil hálfu forræði sveitarfélaga með ólíka fjárhagsstöðu, ólíkar áherslur, o.s.frv., sem þurfa að kljást sameiginlega við landssamtök kennara og annarra starfsmanna hinum megin samningaborðs án nægilegs fjármagns og án atbeina ríkisvaldsins, var og er fyrst og fremst stjórnunarvandi, sem kenna má við spennitreyju, því allur sveigjanleiki í ákvarðanatöku er svo að segja kyrktur fyrirfram. Í harðnandi deilu kennara og sveitarfélaga hérlendis kristallast þessi stjórnunarvandi í miklu og vaxandi forystu- og úrræðaleysi samningsaðila, sem og pólitískt kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum landsins. Um leið er orðin ljós dálítið ógnvænleg og hættuleg forystufælni í ríkisstjórn landsins. Eftir fimm vikna stopp á lögboðinni fræðslu grunnskólanemenda og tvær vikur fyrirsjánlegar til viðbótar, er vart hægt að lýsa ástandinu öðru vísi en sem stjórnunarlegu og stjórnmálalegu klúðri forystumanna þjóðarinnar. Kjaradeila kennara og sveitarfélaganna, með verkfall sem rúsínu í pylsuenda, var strax í vor fyrirsjáanlegur farsi. Ef unnið hefði verið vel og skipulega í sumar væri staðan önnur. Nú stefnir hraðbyri í það að skólaárið eyðileggist hjá grunnskólanemendum, ekki aðeins hjá tíundu bekkingum, heldur einnig hjá öðrum árgöngum. Úr því sem komið er verður Alþingi að setja lög sem skylda kennara aftur til starfa, á meðan deilumál þeirra og sveitarfélaganna eru sett í nefnd/nefndir með gild markmið og tímaáætlun. Góðu fréttirnar eru þær að viðskiptavinir opinberra aðila, sem treysta á lögboðna þjónustu, þurfa ekki lengur að líða fyrir kjaradeilur, því tvenns konar skýrar aðferðir eru fyrir hendi, sem leiða til lausnar. Annars vegar kjaradómsleiðin, hins vegar skilvirkara og tímasett samningaferli, sem aðilar þurfa að koma sér saman um og þyrfti að lögfesta. Ferli sem hefst nokkru áður en samningar renna út og gengur fram undir vökulu auga ríkisvaldsins. Náist ekki niðurstaða fyrir tilskilinn tíma, gegnir ríkissáttasemjari lykilhlutverki með heimild til miðlunar, sem aðilar eru skyldugir til að sætta sig við. Sýndarverkföll eru hluti af slíku skilvirku samningaferli. Eftir viðræðuslit á föstudag og fyrirsjánlegt úrræðaleysi verður ekki hjá því komist að ríkisvaldið og sveitarfélögin taki loks af festu á þeim stjórnunarvanda og þeirri forystufælni sem augljós er orðin. Almenningur getur ekki sætt sig lengur við óbreytt ástand. Stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, verða að leita nýrra leiða í kjaraviðræðum við starfsmenn í opinberri þjónustu. Sýna aukið frumkvæði, aukinn stórhug til að bæta og treysta lögboðna þjónustu við landsmenn. Forystumenn þjóðarinnar verða að treysta sér til slíkra verka.



Skoðun

Sjá meira


×