Sport

Ætluðu að kveikja í leikmannarútu

Sænskar fótboltabullur, sem földu 27 bensínsprengjur fyrir utan Råsundaleikvanginn í Stokkhólmi síðastliðinn mánudag þegar grannaliðin AIK og Hammarby mættust, ætluðu að nota bensínsprengjurnar til þess að kveikja í leikmannarútu AIK liðsins. Þetta hefur sænska Aftonbladet eftir lögreglunni í Stokkhólmi í morgun en óeinkennisklæddir lögreglumenn sem voru í áhorfendastúkunni fengu vitneskju um þessara fyrirætlanir meðan á leiknum stóð. Þröngur hópur stuðningsmanna AIK, fótboltabullur sem kallast svarti herinn og hefur tengsl inn í hreyfingu nýnasista í Svíþjóð, hefur margoft komist í kast við lögin undanfarin ár. Liði þeirra hefur gengið illa í ár og er í næst neðsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. Það sætta fótboltabullurnar sig ekki við og því átti að kveikja í leikmannarútu liðsins. Sænska knattspyrnusambandið dæmdi AIK til þess að spila næstu tvo heimaleiki liðsins fyrir luktum dyrum, auk 10 milljón króna sektar eftir óeirðir stuðningsmanna liðsins gegn Hammarby síðastliðinn mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×