Sport

Magni í Snæfelli kærður

Magni Hafsteinsson, leikmaður Snæfells, gæti verið í vondum málum eftir að hann var rekinn út úr húsi í leik Hamars/Selfoss og Snæfells í Intersportdeildinni á fimmtudagskvöldið. Georg Andersen, annar dómara leiksins, hefur kært Magna til aganefndar KKÍ fyrir að hafa reynt að slá til sín eftir að honum var vísað úr húsinu og sagðist Georg í samtali við Fréttablaðið í gær standa við allt í kærunni en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið, sagði það reglu meðal dómara að ræða sem minnst um ákveðin atvik í leikjum. Hann sagði þó að athyglisvert væri að fylgjast með því hvernig aganefndin tæki á málinu. Annað hljóð er í strokki Snæfells. Þar á bæ skilja menn hvorki upp né niður í viðbrögðum Georgs og sagði Báður Eyþórsson, þjálfari liðsins, að hann væri með myndbandsupptöku af leiknum þar sem sæist svart á hvítu að Magni hefði ekki reynt að slá til Georgs. "Við munum senda aganefndinni þessa upptöku og ef satt skal segja þá hef ég ekki minnstu áhyggjur af þessu. Ég sef rólegur enda veit ég að réttlætið mun sigra," sagði Bárður. Magni, hinn meinti brotamaður, kom af fjöllum þegar Fréttablaðið bar undir kæru Georgs. "Ég skil ekki hvað hann er að fara með þessu. Ég viðurkenni það að ég var mjög reiður þegar hann vísaði mér út úr húsi fyrir tvær saklausar tæknivillur að mín mati en það er langur frá að ég hafi reynt að slá hann. Ég ætlaði ekki að láta hnefana tala enda þekktur sem friðarins maður að eðlisfari," sagði Magni sem hafði ekki trú á því að hann yrði dæmdur í lengra bann en sem nemur eins leiks sjálfkrafa banni fyrir að vera vísað út úr húsi. Aðspurður um hvort eitthvað illt væri milli hans og Georgs sagði Magni ekki svo vera. "Ég hef alltaf kunnað vel við Gogga [Georg] og fundist hann vera góður dómari. Ég var hins vegar ekki sammála honum á fimmtudaginn," sagði Magni. Gissur Tryggvason, formaður körfuknattleiksdeildar Snæfells, sagði að dómgæslan í þessum leik hefði hallað mjög á Snæfell. "Þeir fengu að spila mjög gróft á meðan það var alltaf dæmt á okkur. Snæfelli er mismunað hjá dómurum og það þarf ekki fara lengra aftur en í úrslitaeinvígið gegn Keflavík í fyrra til að sjá að þar vorum við rændir titlinum," sagði Gissur. Málið verður væntanlega tekið fyrir af aganefnd KSÍ á þriðjudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×