Sport

Jón Arnór með 15 stig á 22 mínútum

Jón Arnór Stefánsson lék vel með Dynamo St. Pétursborg í öðrum leik liðsins í rússnesku úrvalsdeildinni í körfubolta en Dynamo vann lið Euras Ekaterinburg með 21 stigi, 98-77, í fyrsta heimaleik vetrarins sem fram fór í gær.  Jón Arnór byrjaði vel og skoraði 7 stig strax í fyrsta leikhluta en hann endaði leikinn með 15 stig á þeim 22 mínútum sem hann spilaði. Jón Arnór lenti reyndar í villuvandræðum í seinni hálfleik og spilaði því minna. Jón Arnór nýtti 6 af 7 vítum sínum en skotnýtingin hefði mátt vera betri því kappinn setti aðeins niður 4 af 13 skotum sínum. Þá fiskaði hann 7 villur, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Dynamo er búið að vinna báða leiki sína til þessa í deildinni og Jón Arnór er með 12 stig að meðaltali í þeim en hann skoraði 9 stig í fyrsta leiknum. Þrír leikmenn liðsins skoruðu á bilinu 17 til 19 stig og því er ljóst að stigaskorið er að dreifast mikið hjá liðinu. Næsti leikur er gegn CSK VVS Samara á morgun og hann er einnig á heimavelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×