Sport

Guðjón eða Gary?

Knattspyrnuþjálfarinn Guðjón Þórðarson er enn úti á Englandi þar sem hann freistar þess að ná sér í þjálfarastöðu. Hann hefur rætt við nokkur félög í þessari viku og um helgina mun hann spjalla við forráðamenn Leicester City. Á meðan sitja Grindvíkingar með kláran samning til undirritunar sem er byrjaður að rykfalla. Jónas Þórhallsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, sagðist vera þolinmóður og hann mun gefa Guðjóni meiri tíma. "Það er bara sama ferli í gangi hjá mér. Ég er að hitta ýmsa aðila og hitti einn klúbb á mánudag og það eru fleiri fundir fram undan," sagði Guðjón í samtali við Fréttablaðið í gær frá Englandi. Eitt þeirra liða sem Guðjón mun hitta er Leicester City en hann fundar með félaginu um helgina. "Ég er einn þriggja eða fjögurra stjóra sem þeir ætla að ræða við þannig að ég hlýt að eiga einhverja möguleika," sagði Guðjón en breskir veðbankar telja líklegast að gamli Liverpool-jaxlinn, Gary McAllister, fái starfið hjá Leicester. Íþróttadeild Fréttablaðsins hafði samband við staðarblöð í Leicester í gær og spurði þá út í málið. Þeir sögðust litlar sem engar fréttir hafa fengið af gangi mála en töldu þó líklegt að McAllister fengi starfið. Þeir sögðust lítið hafa heyrt af Guðjóni og eftir því sem þeir vissu væri hann ekki líklegur til þess að fá starfið. Mörg þekkt nöfn hafa verið orðuð við starfið og nægir þar að nefna menn eins og John Gregory, Gordon Strachan, Steve Cotterill, Glenn Hoddle og Gary Megson. Bráðabrigðastjóri félagsins er Dave Bassett og hann hefur lýst yfir áhuga á að fá starfið.Það er því ljóst að samkeppnin er hörð en Guðjón virðist eiga einhverja möguleika þar sem hann er einn fárra sem fær viðtal. Guðjón staðfesti það að hann sé með fleiri járn í eldinum en alls hefur hann verið í sambandi við fjögur félög á Englandi. Sum þeirra mála sem hann er með í gangi eru á mjög viðkvæmu stigi og því vildi hann lítið tjá sig um þau. Það er nokkur tími liðinn síðan Guðjón var í viðræðum við félög á Englandi og hann neitaði því ekki að það væri gaman að vera kominn aftur í slaginn. "Þetta umhverfi hér er mjög ólíkt því sem menn eiga að venjast á Íslandi. Það er ekkert elsku mamma í bransanum hérna úti. Það er mikill fiðringur í mér að vera kominn í gang en ég reyni að halda væntingum hjá mér niðri því ég geri mér grein fyrir að þetta er erfiður pakki hérna," sagði Guðjón Þórðarson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×