Sport

Birkir framlengir við ÍBV

"Það urðu svo tíðar og óvæntar breytingar á liðinu strax eftir að Landsbankamótinu lauk að mér fannst ótækt að bæta gráu ofan á svart með því að hætta," segir Birkir Kristinsson, markvörður ÍBV í knattspyrnu. Birkir hefur endurnýjað samning sinn við liðið til eins árs í viðbót þrátt fyrir að hafa ýjað að því að nýliðið tímabil yrði hans síðasta. Engum hefði komið á óvart hefði Birkir ákveðið að hætta enda kappinn á fertugsaldri og hefur leikið yfir þrjú hundruð deildarleiki í efstu deild hér á landi. Hann segir að þrátt fyrir að stjórn ÍBV hafi óskað eftir að hann héldi áfram hafi verið auðveldara að taka þessa ákvörðun þegar horft hafi verið til þeirrar blóðtöku sem lið ÍBV varð fyrir á síðustu misserum. "Það sem átti sér stað strax að mótinu loknu gat enginn séð fyrir. Við misstum góðan þjálfara sem kom liðinu í annað sæti í deildinni. Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Bjarnólfur Lárusson eru farnir og væntanlega Einar Þór Daníelsson líka. Ekki er loku fyrir það skotið að fleiri fari annað þannig að hópurinn sem kemur saman næsta sumar er gerólíkur þeim er lauk keppni í sumar. Þannig eru margir máttarstólpar liðsins farnir og það verður þrautin þyngri bæði fyrir nýjan þjálfara og liðið að fylgja eftir góðum árangri í sumar." Landsliðsferli Birkis lauk á árinu en hann lék sinn síðasta leik fyrir íslenska landsliðið í frægum sigurleik gegn Ítalíu í sumar. Hvað varðar ferilinn með félagsliðum segir Birkir að meðan áhuginn sé fyrir hendi og meiðsl setji ekki strik í reikninginn telji hann sig hafa nóg fram að færa að svo stöddu. "Ég hef verið heppinn með að sleppa við öll meiðsli og meðan ég tel mig hafa eitthvað fram að færa í markinu held ég áfram. Ég hef einnig verið lánsamur með að geta auðveldlega stundað mitt starf meðfram fótboltanum." Þjálfun heillar Birki hins vegar lítið og segist hann efast um að hann taki slíkt að sér bjóðist það í framtíðinni. "Auðvitað sé ég um að halda ungu markvörðunum á tánum en ég sé mig ekki við almenna þjálfun þegar ferlinum lýkur. Annars er best að hafa ekki stór orð um það því hlutirnir breytast hratt." albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×