Sport

Íslensku kylfingarnir bjartsýnir

"Ef við komum heim með skottið á milli lappanna getum við engum um kennt nema sjálfum okkur," segir Örn Ævar Hjartarson, kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja. Örn er einn þriggja íslenskra keppenda á heimsmeistaramóti áhugamanna í golfi sem fram fer í Puerto Rico í lok mánaðarins. Örn Ævar fullyrðir að þangað eigi Íslendingar fullt erindi og ekki sé verra að í þetta sinn verði farið fyrr út en endranær og því verði undirbúningur liðsins með betra móti en verið hefur en liðið mun nota vikurnar fram að mótinu til æfinga í Orlando í Flórída. "Við erum allir í toppformi og höfum allir verið að spila með besta móti undanfarið. Þarna eru aðstæður ólíkar því sem við eigum að venjast en á móti kemur að við förum fyrr út og ættum að vera hundrað prósent tilbúnir til keppni þegar þar að kemur." Auk Arnar Ævars fara til keppni Sigmundur Einar Másson frá GKG og Heiðar Davíð Bragason frá golfklúbbnum Kili. Keppnin fer fram á Rio Mar sveitaklúbbnum en þar eru tveir alþjóðlegir golfvellir og aðstaða öll til fyrirmyndar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×