Sport

Sigurganga Stúdína heldur áfram

ÍS hélt áfram sigurgöngu sinni í kvennakörfunni með 25 stiga sigri á KR, 43-68, í lokaleik annarrar umferðar 1. deildar kvenna í körfubolta í gær. ÍS hefur unnið báða deildarleiki sína eins og lið Keflavíkur og Grindavíkur en á þriðjudaginn tekur ÍS á móti Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur í toppleik deildarinnar. Signý Hermannsdóttir skoraði 19 stig, tók 10 fráköst, stal 5 boltum og gaf 4 stoðsendingar hjá Stúdínum. Alda Leif Jónsdóttir var með 14 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Lovísa Guðmundsdóttir skoraði 10 stig og Þórunn Bjarnadóttir var með 8 stig, 5 fráköst, 5 stolna bolta og 4 stoðsendingar. Helga Þorvaldsdóttir sýndi gamla takta með KR-liðinu og skoraði 12 stig, tók 8 fráköst og stal 5 boltum og þær Sigrún Skarphéðinsdóttir og Eva María Grétarsdóttir komu henni næst með 7 stig. Katie Wolfe lék ekki með KR-liðinu í gær og munaði um minna en hún fer í skoðun á morgun vegna hnémeiðsla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×