Sport

Heppnir að ná jafntefli

Fjölmiðlar á Möltu segja að Íslendingar geti þakkað markverðinum Árna Gauti Arasyni að hafa náð jafntefli í landsleiknum í gær þegar Íslendingar og Möltumenn gerðu markalaust jafntefli. Þetta var besti leikur Möltumanna í tvö ár segja fjölmiðlar þar í landi og telja að Malta hafi átt sigurinn skilið. Kristján Örn Sigurðsson varnarmaður meiddist í leiknum og litlar líkur eru á því að hann verði með á miðvikudag þegar Íslendingar mæta Svíum. Það er óhætt að taka undir með fjölmiðlum á Möltu. Íslendingar voru stálheppnir að sleppa með stig úr leiknum. Árni Gautur Arason, sem hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í undanförnum leikjum, var langbesti maður íslenska liðsins. Þjálfararnir og formaður Knattspyrnusambandsins sögðu fyrir leikinn að ekkert annað en sigur á Möltu kæmi til greina. Íslenska landsliðið er núna í 88. sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins og hefur fallið um 30 sæti frá áramótum. Miðað við yfirlýsingar þjálfara og formanns KSÍ fyrir leikinn gegn Möltu vaknar sú spurning hvort leikur Íslendinga og Svía á miðvikudag verður sá síðasti undir stjórn þeirra Ásgeirs Sigurvinssonar og Loga Ólafssonar. Ljóst er að engin breyting verður á þjálfaramálum fyrr en eftir þann leik. Tapi Íslendingar fyrir Svíum á miðvikudag verður eitt stig uppskeran úr fjórum leikjum sem varla getur talist ásættanlegt. Eftir Svíaleikinn kemur hlé þar til í mars þegar Íslendingar mæta Króötum ytra. Miðvikudagurinn gæti verið örlagavaldur í fótboltanum fyrir þá Ásgeir og Loga. Ekkert annað en sigur á Svíum, sem eru í 22. sæti á styrkleikalistanum, heldur þeim Ásgeiri og Loga í starfi. Miðað við svör þeirra fyrir Möltuleikinn gætu þeir ákveðið að segja af sér eftir leikinn gegn Svíum verði úrslitin óhagstæð. Óvíst er að jafntefli dugi. Kröfuharðir knattspyrnuáhugamenn sætta sig ekki við enn einn ósigurinn. Leikmennirnir sem spila gegn Svíum gætu því haft örlög þjálfaranna í hendi sér. Landsliðsmennirnir þurfa auðvitað að axla einhverja ábyrgð sjálfir - frammistaðan í undanförnum leikjum er engan veginn ásættanleg.
MYND/Domenic Aquilina
MYND/Domenic Aquilina
MYND/Domenic Aquilina
MYND/Domenic Aquilina
MYND/Domenic Aquilina
MYND/Domenic Aquilina
MYND/Domenic Aquilina



Fleiri fréttir

Sjá meira


×