Sport

Vonbrigði á Möltu

Íslenska landsliðið náði aðeins markalausu jafntefli gegn lágt skrifuðu liði Maltverja á heimavelli hinna síðarnefndu í dag. Ísland byrjaði vel en náði aldrei að brjóta varnarmúr heimamanna niður og var síðari hálfleikur vægast sagt slakur af hálfu íslenska liðsins. Ísland er þar með aðeins með 1 stig af 9 mögulegum í 8. riðli undankeppni HM. Leikaðferð hins þýska þjálfara Möltu, Horst Hess, gekk fullkomlega upp en Maltverjar stilltu oft tíu mönnum upp í vörn og það reyndist leikmönnum Íslands einfaldlega ofviða, sem gekk illa að skapa sér afgerandi færi. Besta færi leiksins fengu Maltverjar er Ivan Woods komst einn inn fyrir galopna vörn Íslands á 33. mínútu en Árni Gautur varði vel frá honum, og einnig frákastið en þá freistað Michael Mifsud gæfunnar. Meistaralega gert hjá Árna Gauti. Seinni hálfleikur var, eins og áður sagði, afar dapur af hálfu íslenska liðsins og Maltverjum óx ásmegin. Ef undan er skilið sláarskot Eiðs Smára á 54. mínútu fengu Íslendingar engin markverð færi. Landsliðsþjálfararnir Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson gerðu þrjár breytingar meðan á leiknum stóð: Helgi Sigurðsson kom inn á fyrir Indriða Sigurðsson á 59. mínútu, Veigar Páll Gunnarsson fyrir Þórð Guðjónsson á 68. mínútu og Arnar Grétarsson fyrir Brynjar Björn Gunnarsson á 78. mínútu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×