Sport

Baráttan á Old Trafford

Enska landsliðið endurheimtir tvær af sínum stærstu stjörnum þegar liðið tekur á Wales í undankeppni HM 2006 í dag. Wayne Rooney er búinn að ná sér af meiðslum og Rio Ferdinand hefur lokið sínu átta mánaða leikbanni og er því einnig klár í slaginn. Ferdinand hefur ekki spilað í landsliðinu í rúmt ár en Rooney lék síðast með liðinu í átta liða úrslitum Evrópumótsins í Portúgal í sumar. Sven-Goran Eriksson hefur látið það frá sér að hann ætli að setja Ferdinand strax inn í liðið og við hlið Sol Campbell sem er einnig að koma aftur úr meiðslum og því er ekkert pláss í liðinu fyrir þá John Terry og Ledley King sem spilað hafa síðustu leiki. Eriksson hefur líka gefið þau skilaboð að enska liðið verði með þriggja manna sókn í leiknum og Rooney spili þar fyrir aftan þá Michael Owen og Jermain Defoe. Enska liðið hefur verið ganrýnt að undanförnu þrátt fyrir að byrjunin sé ekkert slæm í þeim tveimur útileikjum sem lokið er, 2-2 jafntefli gegn Austurríki og 2-1 sigur á Pólverjum. Liðið er samt í öðru sæti riðilsins á eftir Austurríki á markatölu. Leikstaðurinn, Old Trafford, er merkilegur fyrir margar sakir ekki síst þar sem fjórir leikmenn munu spila þar á vanalega heimavelli sínum því Manchester United á þrjá leikmenn í enska liðinu, Ferdinand, Rooney og svo Gary Neville og hjá Wales mun Ryan Giggs spila sögulegan leik því hann hefur aldrei leikið í útiliði á Old Trafford enda verið hjá United allan sinn feril. Það eru fleiri dramatískar tengingar í Leikhús draumanna hjá liðunum, David Beckham er mættur aftur á Old Trafford sem og þjálfari Wales, Mark Hughes sem spilaði í ár hjá United. Hughes skoraði einnig sigurmark Wales í síðasta landsleik þjóðanna sem var í Wreham fyrir tíu árum en það er aðeins einn af 14 sigurleikjum Wales í 97 landsleikjum þjóðanna. England hefur unnið 62 af leikjunum. Wales hefur ekki komist í úrslitakeppni stórmóts síðan á HM 1958 og liðið hefur ekki byrjað vel með tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum gegn Aserbaídjan og Norður-Írlandi. Hughes hefur tekið við Blackburn og er því væntanlega að stjórna sínum síðasta landsleik og gæti því endað á sigri í baráttunni svonefndri um Bretland.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×