Sport

Geir aðstoðar ekki Viggó

Geir Sveinsson mun ekki verða aðstoðarmaður Viggós Sigurðssonar hjá íslenska landsliðinu í handbolta en bæði Viggó og forysta HSÍ sóttist fast eftir því að Geir tæki starfið. Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í gær og sagði að hann myndi hefja leit að aðstoðarmanni nú þegar.  Geir sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að það hefði læðst að honum sá grunur þegar hann ræddi við forystu HSÍ fyrr í vikunni að Viggó hefði alltaf verið fyrsti kostur því honum var boðin aðstoðarþjálfarastaðan á þeim fundi. "Ég kom inn í þessar viðræður með það fyrir augum að ég væri að fara ræða um landsliðsþjálfarastarfið en þegar á reyndi var sennilega eingöngu verið að bjóða mér starf aðstoðarmanns. Ég ákvað að hugsa það boð en eftir blaðamannafundinn á fimmtudaginn þegar Viggó var kynntur sem landsliðsþjálfari þá hvarf áhuginn smá saman. Ég vil taka það fram að ég er ekki svekktur yfir því að hljóta ekki starfið. Viggó er mjög hæfur þjálfari og hann á þetta fyllilega skilið," sagði Geir og bætti því við að hann myndi aldrei aftur þjálfa félagslið á Íslandi. "Ég brann út á fjórum árum í þessu síðast og ætla mér ekki að gera það aftur. Ef menn hafa metnað þá er þetta full vinna fyrir lágmarkslaun því að það er ekki litið á þetta sem fulla vinnu. Það nennir enginn að standa í þessu til lengdar," sagði Geir sem viðurkenndi að landsliðið væri eina liðið sem hann gæti hugsað sér að þjálfa á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×