Sport

Keflvíkingar byrja með sigri

Keppni í Intersportdeildinni í körfuknattleik hófst í gærkvöldi með fimm leikjum. Íslandsmeistarar Keflavíkur hófu titilvörn sína á sigri á Sauðárkróki, sigruðu Tindastól með 110 stigum gegn 76. Svavar Birgisson var stigahæstur Tindastóls með 30 stig en fimm leikmenn Keflvíkinga skoruðu yfir 10 stig í leiknum. Halldór Halldórsson var stigahæstur, skoraði 17 stig. Njarðvík, sem spáð er deildarmeistaratitli, sigraði KFÍ með 106 stigum gegn 85. Troy Wily skoraði 29 stig fyrir Njarðvík en Joshua Helm skoraði 36 stig fyrir KFÍ og Pétur Sigurðsson 23. Nýliðar Fjölnis unnu Hauka, 87-86, í leik þar sem leikklukkan rændi Haukum sigrinum eins og greinir frá annars staðar á Vísi. Haukar skoruðu og fögnuðu sigri en þá kom í ljós að klukkan í íþróttahúsinu fór ekki í gang. Jeb Ivy skoraði 26 stig fyrir Fjölni en John Waller 22 fyrir Hauka. Skallagrímur, sem nú leikur í efstu deild eftir árs fjarveru, sigraði ÍR í framlengdum leik, 103-100. Hafþór Gunnarsson skoraði 23 stig fyrir Skallagrím en Grant Davis 31 fyrir ÍR. KR sigraði Hamar/Selfoss með 90 stigum gegn 77. Sex KR-ingar náðu að skora 10 stig eða meira. Skarphéðinn Ingason var stigahæstur þeirra með 17 stig en mesta athygli vakti frammistaða hins kornunga Brynjars Björnssonar. Brynjar skoraði 11 stig á þeim 16 mínútum sem hann spilaði en þessi 16 ára piltur er einn allra efnilegsti körfuboltamaður landsins. Chris Woods var langstigahæstur í liði Hamars/Selfoss, skoraði 34 stig. 1. umferð lýkur í kvöld þegar Grindavík keppir við Snæfell í Grindavík. Þá verða fjórir leikir í 1. deild karla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×