Sport

Viðtal við Þórey Eddu

Þórey Edda Elísdóttir er án efa fremsti frjálsíþróttamaður okkar Íslendinga í dag en þessi geðþekka stúlka hafnaði einmitt í 5. sæti í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Aþenu sem fram fóru í ágústmánuði. Það eru færri sem vita að Þórey Edda hóf íþróttaferil sinn hjá Fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði, þá 9 ára gömul. Í vikunni var Þórey Edda heiðruð af forráðamönnum Bjarkar og eru þeir að vonum afar stoltir af þessum fyrrum nemanda sínum. Fréttablaðið var á svæðinu og ræddi við Þóreyju Eddu. "Það er rosa gaman að koma hingað aftur og gaman að sjá hvað félagið hefur stækkað og dafnað mikið frá því að ég var hérna," segir Þórey Edda og það er óhætt að segja að henni sé vel tekið í Bjarkarhúsinu - það þverfótar varla fyrir litlum aðdáendum sem vilja hitta og spjalla við goðið og hún gefur sér góðan tíma í það og hvetur litlu iðkendurna til dáða. "Ef ég get komist svona langt þá getið þið það líka," segir hún. Flestir stangarstökkvarar í fremstu röð koma úr fimleikum. Af hverju hentar fimleikagrunnurinn stangarstökkvurum svona vel? "Stangarstökkið er svo fjölbreytt, þú þarft að vera sterkur í gegnum allan líkamann, höndum fótum jafnt sem í maga og baki," segir Þórey og bætir við. "Þetta er í raun eina greinin í frjálsum íþróttum sem er þannig, það eru mjög margir þættir sem þurfa að fara saman til að mynda þann heildarstyrk sem er nauðsynlegur til að ná langt í greininni. Það er ekki nóg að geta híft sig upp á stönginni, þú þarft að vita tæknilega hvernig þú ert í loftinu og geta hugsað á tæknilegum nótum og það er nauðsynlegt að þekkja líkamann og nota heilann í tengslum við líkamshreyfingarnar. Það sama á við um fimleikana, þegar þú ert að stökkva af gólfinu þarftu að þekkja líkamann og vita nákvæmlega hvar þú ert í loftinu - þetta er flókið ferli og það er ekki nóg að vera bara hraður heldur þarftu að vera tæknilega góður og sterkur." Þórey nefnir til dæmis að margar af rússnesku stelpunum sem í dag eru í allra fremstu röð, komi einmitt úr fimleikunum. "Flestar þessar bestu eru einmitt með mikinn hraða og styrk og mikla fimleikahæfileika. Feafanova var í fimleikum en veit reyndar ekki alveg með Isinbayevu en það er mjög áberandi hvað fimleikagrunnurinn nýtist vel í stangarstökkinu." Stangarstökk kvenna er frekar ung grein og það var fyrst keppt í henni á Ólympíuleikum fyrir fjórum árum í Sidney og þróunin hefur verið mjög ör sem og framfarirnar. Í framhaldi af því, eru margar stelpur að koma inn í stangarstökkið í dag sem hafa einfaldlega bara æft þá grein? "Það er til líka, þá eru þær kannski búnar að æfa stangarstökk frá því í kringum 16 ára aldurinn en eru þó búnar að vera gera fimleikaæfingar," segir Þórey sem byrjaði sjálf 19 ára gömul að æfa stangarstökk. "Ég nefni sem dæmi um hversu fimleikaæfingar eru mikilvægar fyrir iðkendur í stangarstökki að þá æfi ég ennþá fimleika einu sinni í viku." Þórey Edda stefnir á áframhaldandi framfarir í sinni grein og telur sig eiga talsvert inni. "Ég ætla og get farið hærra, ef ég ætlaði mér ekki hærra væri ég einfaldlega hætt. Ég stefni bara á að halda áfram á þessari braut," segir Þórey sem býr í Þýskalandi þessi misserin, nánar tiltekið í Leverkusen, og lætur hún vel af dvöl sinni þar. "Það er gott að vera þarna, frábærar aðstæður og toppþjálfun og ég gæti í raun ekki beðið um mikið meira," segir Þórey Edda en hún er í fjarnámi í verkfræði frá Háskóla Íslands og er líka á þýskunámskeiði og dagskráin hjá henni er greinilega þéttskipuð. Í framhahaldi af því er þá spurt - hefur afreksfólk eins og Þórey Edda tíma fyrir félagslíf, er einhvern tíma frí frá æfingum og keppni? "Það er meira á öðrum nótum en hjá venjulegu fólki." Hún segir félagslíf sitt tengjast íþróttinni mjög mikið. "Þegar ég er að ferðast á mótin um allan heim þá hitti ég mína útlendu félaga sem koma frá fjölmörgum löndum. Þetta er ekkert pöbbarölt, eins og gefur að skilja, en það er alveg nauðsynlegt að viðhalda félagslega þættinum þótt maður sé í einstaklingsíþrótt sem krefst nokkuð mikillar einveru." Er engin tími fyrir kærasta? "Ég veit það nú ekki," segir Þórey og svipurinn er óræður. "Hann hlýtur að vera til einhversstaðar." Þórey Edda er pólítísk og hefur látið til sín taka á þeim vettvangi og var meðal annars í öðru sæti á lista vinstri grænna fyrir síðustu alþingiskosningar í suð-vestur kjördæmi. Hefur hún hug á að láta meira til sín taka á þeim vettvangi? "Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það ennþá, þetta var skemmtileg og lærdómsrík reynsla. Ég hef mikinn áhuga á íþróttapólítík og það getur vel verið að ég fari meira út í hana heldur en landspólitíkina - ég er í það minnsta afar opin fyrir frekari þátttöku," segir Þórey Edda Elísdóttir að lokum. sms@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×