Innlent

Unnt að endurvekja eggjastokka

Konur sem greinast með krabbamein ættu að láta taka vefsýni úr eggjastokkunum og frysta. Þetta er mat íslensks sérfræðings, sem telur að innan fárra ára verði unnt að gera eggjastokka sem skaddast hafa við krabbameinsmeðferð, virka aftur. Í síðustu viku eignaðist belgísk kona barn eftir að hafa gengist undir geisla- og lyfjameðferð vegna krabbameins. Slík meðferð þýðir að jafnaði ófrjósemi, þar sem eggjastokkarnir þola ekki meðferðina. Í þessu tilviki lét konan hins vegar frysta vefsýni úr eggjastokkunum, sem komið var fyrir á ný eftir að hún hafði sigrast á krabbameininu. Skömmu síðar fékk hún blæðingar og varð þunguð. Guðmundur Arason er kvensjúkdómalæknir og sérfræðingur í ófrjósemi. Hann segir fréttirnar frá Belgíu til marks um tímamót. Hann segir þetta lausn fyrir þær konur sem þurfi að fara í krabbameinsmeðferð og fórna sinni frjósemi. Þetta geti gagnast íslenskum konum í framtíðinni, þó að of snemmt sé að segja til um hver árangurinn verði. Hann telur að eftir nokkur ár verði hægt að bjóða upp á meðferð af þessu tagi hér á landi. Hann ráðleggur jafnframt íslenskum konum sem greinast með krabbamein að láta taka vefsýni úr eggjastokkum sínum og frysta þau. Tæknin til þess sé til og þó að aðstaðan til þess sé ekki til staðar hér á landi, verði hún það væntanlega eftir nokkur ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×