Innlent

Guðni vill ekki lög

Menn eiga ekkert að vera gefa undir fótinn með það að ríkisvaldið grípi inn í kjaradeilu kennara við sveitarfélögin segir Guðni Ágústsson starfandi forsætisráðherra. Skiptar skoðanir virðast vera meðal þingmanna um hvort Alþingi ætti að setja lög á verkfall grunnskólakennara dragist það á langinn. Guðni Ágústsson, starfandi forsætisráðherra, segir það ekki neina lausn að ríkisvaldið grípi inn í. Hann segir að það hafi ekki endilega verið rétt ákvörðun af hálfu Alþingis, þegar lög hafa verið sett á sjómenn, enda sé spurning hvort deilunni ljúki nokkurn tímann þegar svo ber undir. Í morgun lýsti stjórn Kennarasambandsins áhyggjum sínum af stöðu viðræðnanna í morgun og hvatti forystumenn ríkis og sveitarfélaga til að hætta að benda hverjir á aðra og setjast á rökstóla um hvernig fjármagna megi nauðsynlegar kjarabætur. Stjórn sambandsins hefur óskað eftir fundi með ráðamönnum stærstu sveitarfélaganna til að skýra sjónarmið sín. Guðni segist vera þeirrar skoðunar að kennarar eigi að hafa góð laun, sem verði að endurspegla það sem gerist í samfélaginu. Hann segir ríkisvaldið vissulega bera sína ábyrgð, en hins vegar sé þetta fyrst og fremst deila sveitarfélaganna og kennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×